Vildarvinir Grunnskóla Vesturbyggðar hlutu styrk til að kaupa þrívíddarfræsara í Patreksskóla frá samfélagstyrkjum Orkubúi Vestfjarða. Þrívíddarfræsarinn mun nýtast í skólastarfi sem eitt verkfærið í snillismiðjum í Patreksskóla. Hugmyndin um snillismiðjur byggir á eflingu sköpunar og uppbyggingu á hæfni sem kennd er við 21. öldina. Hönnun og sköpun á ekki bara heima í sérstökum kennslustundum, það á heima í öllu námi. Snillismiðja er alls konar. Þannig að ein sameiginleg lýsing á þessu fyrirbæri er ekki til en tilgangurinn með þeim öllum er sá sami, að efla sköpunarhæfni notenda og kenna þeim að nýta hana sér til framdráttar í lífinu. Snillismiðjur snúast um hugarfar og tilgang verkefnanna, um að læra af mistökum og að læra að vinna eftir ákveðnu hönnunarferli. Í Patreksskóla höfum við unnið að því að koma upp snillismiðjum í Vesturbyggð, það er okkar framtíðarsýn að öll börn og fullorðnir í sveitarfélaginu geti nýtt sér smiðjurnar til að vinna að sköpun og hafi aðgang að fjölbreyttum tækjum og tólum. Kaup á þrívíddar fræsara hjálpa til við að styrkja starf snillismiðjunnar og auka fjölbreyttnina.
Vildarvinir Grunnskóla Vesturbyggða þakka Orkubúi Vestfjarða kærlega fyrir styrkinn.