Handbók

Ábyrgð, réttindi og skyldur starfsfólks skóla.
( Úr reglugerð nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum)
3. gr.
Starfsfólk skóla skal ávallt bera velferð nemenda fyrir brjósti og leggja sig fram um að tryggja nemendum öryggi, vellíðan og vinnufrið til að þeir geti notið skólagöngu sinnar. Starfsfólki ber að stuðla að jákvæðum skólabrag og starfsanda í öllu skólastarfi og góðri umgengni.
Starfsfólk skal sýna nærgætni og gæta virðingar í framkomu sinni gagnvart nemendum, foreldrum og samstarfsfólki og gæta þagmælsku, nema þegar um er að ræða tilkynningarskyldu gagnvart barnaverndarlögum. Stjórnendum skóla ber að vinna markvisst að því að stuðla að jákvæðum samskiptum og gagnkvæmu trausti allra í skólanum og í þeirri vinnu skal taka sérstaklega mið af aldri og þroska nemenda. Ef mál koma upp í skólanum sem tengjast óæskilegri hegðun og framkomu nemenda skal fara með slík mál skv. 6. kafla reglugerðar þessarar.
Skólastjórnendum og kennurum ber að eiga samstarf við foreldra um hegðun, líðan og samskipti barna þeirra. Umsjónarkennarar skulu upplýsa foreldra reglulega um skólabrag og bekkjarbrag og leita eftir uppbyggjandi samstarfi við foreldrahópinn um hvorutveggja. Starfsfólki skóla ber að taka afstöðu gegn líkamlegu, andlegu og félagslegu ofbeldi í skólanum. Ef slík tilvik koma upp skal bregðast við þeim samkvæmt stefnu skólans, sbr. 3. kafla reglugerðar þessarar.
Skólastjórnendum og kennurum ber að upplýsa foreldra ef ítrekað er fundið að hegðun eða framkomu nemanda í öllu starfi á vegum skóla, þ. á m. í útiveru á skólatíma og í ferðum utan skólalóðar á vegum skólans.

Skipulag starfsdaga – fyrir kennara og starfsfólk

Starfsdagar að hausti
Vinna í eigin stundaskrá ( skrá inn fög) og ákveða viðtalstíma
Sækja bækur í bókageymslu ( eldri í efriskóla, yngri í neðriskóla Patró)
Fara yfir námsgögn og búnað í kennslustofu
Fundur með sérkennara sem upplýsir umsjónarkennara um nemendur sem eru með greiningu og skoða gögn og áætlanir varðandi þá.
Fara yfir upplýsingar um nemendur og forráðamenn í Mentor ( heimilisföng, símanúmer, netföng)
Skrá inn námsefni í Skólavísi / Lotur í Mentor
Undirbúa einstaklingsnámskrár fyrir þá nemendur sem þess þurfa í samráði við sérkennara
Umsjónarkennarar sjá um að upplýsa aðra starfsmenn um einstaka nemendur.
Skipuleggja haustferðir
Skipuleggja hópaskiptingu í samráði við sérgreinakennara
Skipuleggja námsefniskynningar og láta deildarstjóra vita
Undirbúa kennslu
Námskeið

Starfsdagar að vori
Skil á námsbókum, hljóðbókum og bókasafnsbókum. Ganga frá kennarahandbókum og kennsluleiðbeiningum.
Starfamannaviðtöl ( vonir og væntingar)
Bókapantanir fyrir næsta vetur og óskalista fyrir bækur utan kvóta. Hver kennari pantar fyrir sinn bekk. Árgangastjórar panta fyrir þá sem út af standa og fyrir 1.bekk.
Yfirfara stærðfræðivagna og skrá niður það sem vantar.
Kennarafundur sameiginlegur
Árgangafundur
Námskeið valið hverju sinni af skólastjóra
Almennur frágangur
Frágangur bóka í bókageymslum ( eldri í efriskóla, yngri í neðriskóla)
Frágangur í Mentor
Skil á tölvum ( munið að merkja þær og láta vita ef það þarf að lagfæra e-ð )
Gengið frá í skólastofum
Kennarastofa: veggir, hillur og skrifborð og námsgögn
Þeir sem eru að hætta eða fara í leyfi tæmi hirslur sínar og skili lyklum og fartölvum til deildarstjóra.
Uppfæra eigna/gagnalista ( hand-myndmennt, heimilisfræði, smíði … )
Láta skólastjóra vita ef eitthvað þarf að lagfæra í skólastofum
Ganga frá og skila símenntunarskráningarblöðum
Ársskýrslur sérkennslu – og árgangastjór

Fartölvur kennara
Hver kennari í hálfri stöðu eða meira við Patreksskóla fær fartölvu til eigin afnota. Reynt er að nota sumarfríið til að yfirfara og hreinsa tölvurnar. Ekki er ætlast til þess að kennarar láni öðrum tölvur skólans. Tölvuþjónusta sér um viðgerðir og almennt viðhald á fartölvunum. Skólastjóri sér um að panta viðgerð en kennarar geta beðið tölvuumsjónarmann um minni viðvik og leiðbeiningar þegar hann er á staðnum.

K-drifið
K-drifið er söfnunarmappa í tölvunni fyrir verkefni, próf og ýmsan sameiginlegan fróðleik og upplýsingar fyrir alla kennara í Patreksskóla. Kennarar safna prófum og verkefnum þar inn þannig að aðrir geta nýtt sér þau.
Netsíður
Skólinn hefur aðgang að ýmsum vefsíðum þar sem þeir geta útbúið verkefni og nemendur unnið gagnvirk verkefni á rafrænu formi.
Heimasíða
Heimasíða skólans er https://patreksskoli.is/. Þar eru ýmsar upplýsingar varðandi skólastarfið, nemenda og starfsmannalisti og fréttir úr skólalífinu, svo eitthvað sé talið. Skólastjóri hefur umsjón með heimasíðu Patreksskóla.

Forföll starfsmanna
Þegar kennari forfallast er reynt eftir fremsta megni að skipuleggja forfallakennslu og eru þá yngstu bekkirnir látnir ganga fyrir. Skólastjóri skólans eða staðgengill hans sér um að skipuleggja forföll og tilkynna nemendum og starfsmönnum þær ráðstafanir sem gerðar eru.
Ef kennari forfallast er yfirleitt alltaf reynt að fá forfallakennara fyrir hann. Því er mikilvægt að tilkynna forföll eins fljótt og auðið er. Ef kennari er veikur ber honum að láta vita í skólann sem fyrst. Ef hann hringir ekki næsta dag er gert ráð fyrir honum í vinnu þann dag.
Ef starfsmaður þarf leyfi af persónulegum ástæðum ber honum að útvega afleysingar fyrir sig í samráði við stjórnendur.
Deildarstjórar veita styttri leyfi (1-2 dagar). Skólastjóri veitir lengri leyfi.
Kennarar í fjarnámi eiga að láta vita af staðarlotum og vettvangsnámi strax í byrjun annar. Leyfi er alltaf háð því að hægt sé að útvega forfallakennara.

Starfsmannafélag
Starfsmannafélagið var stofnað 3. febrúar 2003 og er aðalmarkmið félagsins að efla samheldni, samstarf og kynni starfsmanna Patreksskóla, annast samúðar- og tækifærisgjafir, samverustundir í lok anna (jól/vor), ferðalög og samkomur starfsmanna. Félagsmenn eru allir starfsmenn skólans og innheimt er vægt félagsgjald. Haldinn er aðalfundur ár hvert og hefur félagið lög og stjórn sem er 5 manna og samanstendur af starfsfólki af öllum sviðum skólans.

Trúnaðargögn
Allar greiningar og sálfræðiskýrslur eru geymdar í einu eintaki hjá fagstjóra í sérkennslu og það er ekki heimilt að ljósrita slíkar upplýsingar nema með leyfi og vitund hans. Foreldrar geta alltaf haft samband til að fá aðgang að þeim gögnum sem til eru um barn þeirra. Kennarar hafa samband við fagstjóra sérkennslu þegar þá v
antar upplýsingar úr skýrslum og greiningum.
Starfsmenn gæta sérstakrar aðgæslu í vinnu með viðkvæm gögn s.s. prófúrlausnir, yfirlit um einkunnir eða skólasókn. Það er skýr regla að slík gögn mega ekki undir neinum kringumstæðum liggja á glámbekk. Kennarar og aðrir starfsmenn hafa aðgang að læstum hirslum til að varðveita trúnaðargögn sem þeir hafa umsjón með. Einnig er brýnt fyrir kennurum að þeir hleypi ekki nemendum inn á vinnusvæði kennara.

Meðferð trúnaðargagna
Starfsfólk skal gæta þagmælsku um atriði sem það fær vitneskju um í starfi og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirmanns eða eðli málsins. Ef viðkvæmar upplýsingar eru prentaðar út á sameiginlegum prentara skal nálgast þær strax og koma fyrir á öruggum stað. Viðkvæmar upplýsingar sem ekki fara í skjalageymslu ber að setja í tætarann.

Kennurum ber að gæta trúnaðar við nemendur og forráðamenn þeirra. Það er mikilvægt að mál nemenda séu ekki rædd á kaffistofu og gögn þeirra liggi ekki á glámbekk. Sérkennari er með öll trúnaðargögn sem tengjast nemendum og má hvorki ljósrita þau né fara með út úr húsi. Umsjónarkennarar eiga að kynna sér persónumöppur nemenda í samráði við fagstjóra í sérkennslu. Eldri gögnum er safnað í möppur á 5 ára millibili og þær settar í geymslu hjá skólastjóra.
Skólinn vinnur að verklagsreglum um meðferð trúnaðargagna samkvæmt nýjum persónuverndarlögum 2018 í samvinnu við persónuverndarfulltrúa sveitarfélagsins.

Barnavernd
Verklagsreglur um tilkynningaskyldu starfsmanna Patreksskóla til barnaverndarnefndar
Þegar rökstuddur grunur um vanrækslu er kominn upp, þarf að koma tilkynningu á framfæri eins fljótt og unnt er. Ef um vafa er að ræða er hægt að hringja í barnaverndarnefnd og ræða tilvikið og hvort tilkynna eigi málið eða ekki.
Starfsmenn koma tilkynningunni til skólastjórnanda sem tafarlaust fundar með nemendaverndarráði og sendir barnaverndarnefnd tilkynningu í nafni stofnunarinnar. Tilkynningin þarf að vera rökstudd.
Starfsmenn geta einnig tilkynnt sjálfir til barnaverndarnefndar. Er það þá gert undir eigin nafni.
Skólastjóri lætur foreldra vita ef skólinn hefur sent tilkynningu til barnaverndarnefndar. Þar er greint frá lagalegri skyldu skólans og áhersla á velferð barnsins. Áhersla lögð á að markmiðið sé að leita lausna og veita viðeigandi stuðning. Ef grunur er um ofbeldi á heimilinu er haft samband við barnaverndarnefnd án þess að láta foreldra vita.

október 2018

Handbókin í heild sinni