Móttaka nýrra starfsmanna

Skólastjóri er ábyrgur fyrir því að nýjum starfsmanni sé veitt viðeigandi fræðsla samkvæmt móttökuáætlun. Tilgangurinn með móttökuáætlun er að kynna fyrir nýjum starfsmönnum mikilvæg atriði í skólastarfinu og auðvelda þeim að aðlagast nýjum vinnustað. Á hverju hausti skal halda kynningu fyrir nýja starfsmenn. Um kynninguna sjá: Skólastjóri, trúnaðarmaður kennara/starfsmanna, verkefnastjóri tölvumála og umsjónarmaður fasteigna.

Skólastjóri:

 • Sér um að nýr starfsmaður undirriti ráðningarsamning, starfslýsingu starfsins, trúnaðar og þagnarskyldu og heimild til að athuga sakaskrá.
 • Sýnir nýjum starfsmanni húsakynni skólans.
 • Kynnir stefnu skólans.
 • Kynnir réttindi og skyldur starfsmanna skv. kjarasamningi (s.s. veikindarétt, lífeyrismál, símenntunarákvæði, vinnutímaramma, vinnuskýrslu, stundatöflu, undirbúningstíma, vinnumenningu, starfsreglur, trúnaðar- og þagnarskyldu o.fl.).
 • Veitir nýjum starfsmanni upplýsingar um vinnureglur, vinnufyrirkomulag, vinnutíma og starfsmannafundi.
 • Fer yfir starfslýsingu og hæfniskröfur starfsins við kennarann/starfsmanninn, ræðir starfshætti í væntanlegu starfi.
 • Kynnir Aðalnámskrá grunn- og leikskóla/skólanámskrá/ skóladagatal /starfsáætlun.
 • Kynnir upplýsingamiðla, heimasíðu og Mentor.
 • Kennir nýjum starfsmönnum vinnubrögð við skráningu á t.d. Mentor.
 • Kynnir þjónustu sérkennslu og námsvera.
 • Sér um að allar upplýsingar sem fram koma á kynningarfundinum verði aðgengilegar á sameign.
 • Kynnir hvernig móttöku nýrra nemenda er háttað.
 • Kynnir skipulag matarmála í skólanum, bæði fyrir nemendur og kennara/starfsmenn.
 • Fer yfir hagnýt atriði s.s. kaffitíma, fatnað, hefðir og umgengni í skólanum.
 • Kynnir nýja kennara/starfsmenn á fyrsta starfsmannafundi.
 • Kynnir nýja kennara/starfsmenn fyrir foreldrum.
 • Kynnir brunavarnir skólans, fyrstu viðbrögð við slysum og skráningu á slysum.
 • Kynnir tölvukerfi skólans, tölvupóst, geymslu gagna og prentunarmáta.
 • Kynnir vefsíðu skólans og hver setur efni inn á hana.
 • Afhendir nýjum kennara/starfsmanni lykla (kvittað fyrir).
 • Sér um að nýr kennari fái afhenta vinnutölvu (kvittað fyrir og skráð).

Trúnaður og siðareglur

Starfsfólk grunnskóla samkvæmt grunnskólalögum 91/2008, III. kafli, 12. grein skal rækja starf sitt af fagmennsku, alúð og samviskusemi. Það skal gæta kurteisi, nærgætni og lipurðar í framkomu sinni gagnvart börnum, foreldrum þeirra og samstarfsfólki.

Starfsfólk grunnskóla skal samkvæmt sömu lögum gæta fyllstu þagmælsku um hagi barna og foreldra þeirra, sem það fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirmanna og eðli máls. Þagnarskylda helst þótt viðkomandi láti af störfum. Þagnarskylda starfsfólks grunnskóla nær ekki til atvika sem ber að tilkynna um lögum samkvæmt. Skal skólastjóri brýna skyldur þessar fyrir starfsfólki og sérstaklega tilkynningarskyldu samkvæmt barnaverndarlögum. Allir sem vinna við skólann skrifa undir eyðublað til staðfestingar þagnarskyldu.

Ábyrgð, réttindi og skyldur starfsfólks skóla

Úr reglugerð nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum, 3. gr.

Starfsfólk skóla skal ávallt bera velferð nemenda fyrir brjósti og leggja sig fram um að tryggja nemendum öryggi, vellíðan og vinnufrið til að þeir geti notið skólagöngu sinnar. Starfsfólki ber að stuðla að jákvæðum skólabrag og starfsanda í öllu skólastarfi og góðri umgengni.

Starfsfólk skal sýna nærgætni og gæta virðingar í framkomu sinni gagnvart nemendum, foreldrum og samstarfsfólki og gæta þagmælsku, nema þegar um er að ræða tilkynningarskyldu gagnvart barnaverndarlögum. Stjórnendum skóla ber að vinna markvisst að því að stuðla að jákvæðum samskiptum og gagnkvæmu trausti allra í skólanum og í þeirri vinnu skal taka sérstaklega mið af aldri og þroska nemenda. Ef mál koma upp í skólanum sem tengjast óæskilegri hegðun og framkomu nemenda skal fara með slík mál skv. 6. kafla reglugerðar þessarar.

Skólastjórnendum og kennurum ber að eiga samstarf við foreldra um hegðun, líðan og samskipti barna þeirra. Umsjónarkennarar skulu upplýsa foreldra reglulega um skólabrag og bekkjarbrag og leita eftir uppbyggjandi samstarfi við foreldrahópinn um hvorutveggja. Starfsfólki skóla ber að taka afstöðu gegn líkamlegu, andlegu og félagslegu ofbeldi í skólanum. Ef slík tilvik koma upp skal bregðast við þeim samkvæmt stefnu skólans.

Skólastjórnendum og kennurum ber að upplýsa foreldra ef ítrekað er fundið að hegðun eða framkomu nemanda í öllu starfi á vegum skóla, þ. á m. í útiveru á skólatíma og í ferðum utan skólalóðar á vegum skólans.

Nóvember 2021