Skólareglur

Skólareglur

Skólareglur:
Nemendum og starfsfólki ber að sýna gagnkvæma virðingu og tilitssemi, jafnt í orði sem í verki.
Mæta skal stundvíslega í kennslustundir með þau gögn sem nota skal hvern dag.
Öll forföll ber að tilkynna eins fljótt og kostur er.
Ef veðurútlit er tvísýnt meta foreldrar hvort þeir senda börn sín í skólann, og láta vita í skólanum.
Frí til eins dags veitir umsjónarkennari, en skólastjórnendur lengra leyfi.
Öllum ber að kappkosta að umgengni um skólann verði sem best.
Ef nemandi veldur vísvitandi skemmdum á eigum skólans, starfsfólks eða skólafélaga sinna, ber honum að greiða þann kostnað sem af því hlýst.
Neysla sælgætis og gosdrykkja er bönnuð í skólanum, nema á skemmtunum.
Öll tóbaksnotkun, hverju nafni sem hún nefnist, áfengis og fíkniefnaneysla er bönnuð í skólanum, á lóð hans og í ferðum sem farnar eru á vegum hans.
Notkun farsíma í kennslustundum er bönnuð nema með leyfi starfsfólks.
Engin ábyrgð er tekin á persónulegum munum sem nemendur kunna að taka með í skólann.
Umsjónarkennurum er heimilt að setja bekkjarreglur í samvinnu við nemendur sína og skulu þær kynntar foreldrum.

Skýringar vegna agamála

Langflestir nemendur fara eftir almennum reglum, auðveldlega og án umhugsunar. Þeir virða þannig sjálfa sig og aðra, líður vel og öðrum líður vel í návist þeirra. Þeir þurfa nánast engar reglur.
Nokkrir nemendur gleyma sér af og til í full galsafenginni hegðun en eru fljótir að láta sér segjast og bæta hegðun sína þegar þeir eru minntir á. Það er gott fyrir þá að lesa yfir reglurnar til að minna sig á.
Örfáir nemendur eru ósáttir við sjálfa sig, umhverfið og aðra, líður oft illa og gengur stundum illa að fara eftir reglum af ýmsum ástæðum. Vonandi geta skýrar reglur og viðurlög verið þáttur í að hjálpa þeim að axla ábyrgð á eigin hegðun. Reglur og viðurlög eru ekki hugsuð sem refsing heldur leiðbeiningar fyrir þá sem gengur illa að fóta sig. Reglur segja hvað gera skal og viðurlög gera ljóst hvað við tekur ef reglur eru brotnar þannig að ábyrgð á eigin hegðun verður skýrari.

Viðurlögum er skipt í þrep eftir því hve oft og hve alvarlega nemandi brýtur reglur. Að jafnaði er farið eftir því ferli sem tilgreint er í skólanámskrá.

Reglur og viðurlög
Skólareglur hafa verið mótaðar í samráði við nemendur, kennara og skólastjóra. Bekkirnir semja einnig eigin bekkjarreglur og hengja upp í stofunni sinni. Fjallað er um reglurnar á bekkjarfundum og í lífsleiknitímum. Reglurnar eru aðgengilegar á heimasíðu skólans og eru einnig kynntar á fyrsta foreldrafundi skólaársins.
Reglur og viðurlög eru ekki hugsuð sem refsing heldur leiðbeiningar fyrir þá sem gengur illa að fóta sig. Reglur segja hvað gera skal og viðurlög gera ljóst hvað við tekur ef reglur eru brotnar þannig að ábyrgð á eigin hegðun verður skýrari.

Viðurlögum er skipt í þrep eftir því hve oft og hve alvarlega nemandi brýtur reglur. Að öllum jafnaði er farið eftir því ferli sem hér er tilgreint:
Ferill agamála ef nemendur fara ekki að reglum skólans
1. þrep Formleg áminning.
Viðkomandi starfsmaður ræðir við nemandann. Gerir honum grein fyrir að þetta sé formleg áminning og lætur umsjónarkennara vita.
2. þrep Brot skráð.
Viðkomandi starfsmaður ræðir við nemandann og umsjónarkennara hans. Umsjónarkennari skráir nafn nemandans í Mentor. Þar kemur fram hvað nemandinn gerði og hvenær. Umsjónarkennari lætur foreldra vita og óskar eftir samstarfi um bætta hegðun.
3. þrep Formlegt viðtal.
Umsjónarkennari látinn vita. Hann skráir brot nemandans í Mentor. Umsjónarkennari kallar nemandann og viðkomandi starfsmann ef með þarf í formlegt viðtal strax og hægt er. Niðurstöður þess viðtals skráðar í Mentor. Umsjónarkennari hefur samband við foreldra, lætur þá vita af gangi mála og óskar eftir samstarfi.
4. þrep Foreldraviðtal.
Umsjónarkennari látinn vita. Hann skráir brot nemandans í Mentor. Umsjónarkennari kallar nemandann og foreldra hans í formlegt viðtal strax og hægt er. Niðurstöður þess viðtals skráðar og nemandinn og foreldrar kvitta undir ef ástæða er til.
5. þrep
Vísað til skólastjóra – foreldraviðtal.
Umsjónarkennari látinn vita. Hann skráir brot nemandans í Mentor og vísar málinu til aðstoðarskólastjóra/deildarstjóra, sem boðar nemandann og foreldra hans í formlegt viðtal eins fljótt og auðið er. Niðurstöður þess viðtals eru skráðar og skriflegur samningur gerður við nemendann sem hann og foreldrar hans undirrita.
6. þrep
Vísað til skólastjóra – önnur úrræði.
Umsjónarkennari látinn vita. Hann skráir brot nemandans í Mentor og vísar málinu til skólastjóra. Skólastjóri heldur fund með foreldrum, sérkennslustjóra/staðgengli og umsjónarkennara. Eftir það er gripið til viðeigandi ráða eftir eðli málsins. Það geta til dæmis verið:
Að vísa málinu til nemendaverndarráðs.
Að fá foreldra með nemandanum í skólann í kennslustundir.
Að vísa nemanda úr skóla tímabundið.
Að vísa málinu til æðra valds sbr. lög og reglugerðir.
Eftir þetta er mál nemandans á vegum skólastjóra þar til bót er ráðin á.
Alvarleg brot á reglum skólans
Ef brot nemanda á skólareglum er mjög alvarlegt skal mál hans meðhöndlað strax eftir 5. þrepi, jafnvel getur strax orðið um tímabundna brottvísun að ræða eða önnur þau úrræði sem getið er um í 6. þrepi.

Ferill sérstakra mála

Að trufla í kennslustund
Ef nemandi, – þrátt fyririr áminningu-, hegðar sér á þann hátt í kennslustund að óviðunandi er að mati kennara getur kennari gripið til þess úrræðis að vísa nemanda úr kennslustund. Þá bíður nemandinn þar til viðkomandi kennari og umsjónarkennari hafa rætt við nemandann og komist að niðurstöðu. Ávallt skal tilkynna forráðamönnum um brottvísun úr tíma.
Nemandinn mætir ekki í kennslustund hjá þeim kennara, sem vísaði honum út, fyrr en niðurstaða er fengin. Að öðru leyti gilda reglur um feril agamála

Að mæta ekki með námsgögn
Nemendur skulu mæta með tilheyrandi námsgögn í skólann hverju sinni, þ.m.t. viðeigandi fatnað í íþróttir og sund.
Ef misbrestur verður á þessu skal kennari:
Veita nemanda fyrst munnlega áminningu, láta umsjónarkennara vita.
Ræða málið næst við nemanda og umsjónarkennara sem hefur samband við foreldra/forráðamenn og óskar eftir að þeir aðstoði nemandann við að mæta með námsgögn.
Senda nemanda heim eftir námsgögnum.
Senda nemanda heim eftir námsgögnum öðru sinni og fær nemandi þá fjarvist úr kennslustund.
Í öllum tilfellum skal umsjónarkennari látinn vita. Að senda nemendur heim eftir námsgögnum á ekki við nemendur í 1. – 6. bekk en þar skal kennari hafa samband við foreldra/forráðamenn. Verði ekki bót ráðin á þá tekur við 2. þrep í ferli agamála.

Að týna námsbókum
Skólinn sér nemendum fyrir kennslubókum. Þær eru eign skólans og ber nemendum að fara vel með þær. Nemandi skal skila kennslubókum til viðkomandi kennara þegar um er beðið.
Skólinn sér nemendum einnig fyrir öðrum námsgögnum, s.s. pappír og skriffærum, vasareiknum, reglustikum o.fl.

Reykingar
Reykingar og öll tóbaksnotkun eru stranglega bannaðar á skólatíma og hvar sem nemandi er á vegum skólans. Verði nemandi uppvís að reykingum tekur við 2. þrep í ferli agamála og síðan næstu þrep ef ekki verður ráðin bót á.

Neysla áfengis eða annara vímuefna.
Neyti nemandi áfengis eða annarra vímuefna er það brot á landslögum. Verði nemandi uppvís að neyslu eða meðferð slíkra efna á skólatíma eða í ferðalögum á vegum skóla telst það alvarlegt brot á reglum og er meðhöndlað beint eftir 5. eða 6. þrepi í ferli agamála eftir því sem við á.

Fjarvistir nemenda, veikindi og leyfi
Tilkynning um forföll nemenda skal foreldri/forráðamaður tilkynna á kennarastofu skólans eða á Mentor að morgni skóladags eða um leið og við verður komið þann sama dag.
Tilkynni foreldri/forráðamaður ekki forföll nemanda í síðasta lagi fyrir hádegi næsta kennsludag verður litið svo á að um óheimila fjarvist sé að ræða.
Ef nemandi, sem er veikur í lok skólaviku, er enn veikur í byrjun nýrrar skólaviku, skal aftur tilkynnt til skólans um veikindi hans á mánudagsmorgni.
Styttri leyfi Þurfi nemandi stutt leyfi vegna læknisferða eða annars ámóta skal
foreldri/forráðamaður tilkynna það til kennarstofu skólans fyrirfram og ekki síðar en þann sama dag.
Lengri leyfi Leyfi fyrir nemanda í einn dag geta foreldrar/forráðamenn sótt um til umsjónarkennara nemandans.
Ef foreldrar/forráðamenn óska eftir lengra leyfi fyrir nemanda en einn dag geta þeir sótt um það til skólastjóra. Jafnframt skulu þeir fylla út sérstakt umsóknareyðublað sem fæst á kennarastofu og heimasíðu skólans.

Óstundvísi og óheimilar fjarvistir í 1. – 6. bekk.
Fjarvistir Nemendur skulu mæta á réttum tíma í allar kennslustundir. Mæti nemandi ekki í kennslustund án gildra skýringa skal umsjónarkennari strax hafa samband við foreldra/forráðamenn.
Of seint Komi nemandi ítrekað of seint í kennslustund skal umsjónarkennari hafa samband við foreldra/forráðamenn eins oft og þurfa þykir en þó ekki síðar en eftir að nemandi hefur mætt fimm sinnum of seint á önn.
Komi nemandi tíu sinnum of seint á önn skal honum vísað til skólastjóra, sem hefur samband við foreldra/forráðamenn.

Ef ekki verður breyting til batnaðar skal umsjónarkennari vísa málinu til nemendaverndarráðs.

Óstundvísi og óheimilar fjarvistir í 7. – 10. bekk.
Of seint Nemendur skulu mæta á réttum tíma í allar kennslustundir. Komi nemandi eftir að kennari hefur hafið kennslu telst nemandinn hafa komið of seint.
Óheimil fjarv. Ef nemandi er fjarverandi úr kennslustund án þess að foreldri/ forráðamaður hafi tilkynnt um forföll eða beðið um leyfi fyrir nemandann er litið á að um óheimila fjarvist sé að ræða.
Skólasókn Nemendur fá sérstaka einkunn á hverri önn fyrir skólasókn. Allir nemendur byrja hverja önn með einkunnina 10.

Ferill mála ef mætingar nemenda eru ekki í lagi
1. stig. Ef mætingareinkunn nemenda fer niður fyrir 8 skal umsjónarkennari hafa samband heim.
2. stig. Ef einkunn fer niður fyrir 5 skal umsjónarkennari boða til fundar með nemanda og foreldrum.
3.stig. Fari einkunn niður fyrir 2 skal umsjónarkennari vísa málinu til nemendaverndarráðs. Reynt skal eftir megni að funda með foreldrum áður.
Fari fjarvera (veikindi, leyfi, fjarvist) nemenda yfir 20 daga á önn verður máli þeirra vísað til nemendaverndaráðs.

október 2018