Skólareglur

Samskipta- og umgengnisreglur þessar eru grundvallaðar á leiðarljósi Patreksskóla en einnig hugmyndafræði uppbyggingarstefnunnar sem kennd er við Diane Gossen. Jafnréttisáætlun skólans er einnig lögð til grundvallar í skólastarfinu. Uppbyggingarstefnan byggir á kenningum um hæfni einstaklings til sjálfstjórnar, hæfni hans til að tengja saman persónuleg lífsgildi og þann veruleika sem hann býr við. Hún kennir sjálfstjórn, sjálfsaga og eflir hæfni hans til að taka ábyrgð á eigin orðum og gjörðum. Lögð er áhersla á að byggja einstaklinginn upp, að hann þekki þarfir sínar og uppfylli þær án þess að skaða aðra.

Markmið skólareglna er að skapa góðan skólabrag, jákvæð og uppbyggileg samskipti svo allir nemendur geti notið hæfileika sinna og séu öruggir í starfi skólans. Skólareglur þessar eru hluti af stefnu Patreksskóla í umgengi og samskiptum. Þær gilda í öllu kennslusvæði skólans, á skólalóð, í ferðalögum og á viðburðum sem skólinn stendur fyrir.

Almennar umgengisreglur

Í Patreksskóla njótum við frelsis til athafna sem ekki skaða okkur sjálf né samferðamenn okkar. Við temjum okkur ábyrgðarfulla hegðun þar sem við sinnum skyldum okkar og sýnum sjálfsstjórn.

Almenn umgengni

 • Við göngum snyrtilega um og stuðlum að sjálfbærni í skólanum okkar. Við berum virðingu fyrir eigum skólans og annarra.
 • Nemendur borða hádegismat í matsal skólans. Gengið er frá matarleifum, umbúðum og áhöldum sem öðru rusli á viðeigandi hátt. Við hjálpumst að við að hafa snyrtilegt í kringum okkur og viðhafa góða borðsiði.
 • Við truflum ekki kennslustundir, hvorki þeirri sem við erum í né hjá öðrum.
 • Við förum úr útiskóm og göngum frá þeim í skóhillur. Nemendur eru hvattir til að skilja ekki eftir verðmæti í yfirhöfnum. Mælst er til að fatnaður og áhöld í eigu nemenda séu vel merkt.
 • Heimilt er að vera í snjókasti á afmörkuðu svæði, á körfuboltavellinum milli bygginga. Annars staðar er það stranglega bannað.
 • Við erum kurteis og prúð í skólaakstri og sýnum bílstjóra alltaf fyllstu kurteisi.

Snjalltæki

 • Snjallsímar eru almennt ekki leyfðir í Patreksskóla. Snjallsímanotkun er ekki leyfð í kennslustund nema með sérstöku leyfi kennara. Í kennslustundum stýrir kennari notkun snjalltækja þannig að þau þjóni náminu. Ef kennari leyfir hlustun á tónlist meðan unnið er má einungis hlusta á lagalista/play-lista og gæta þess að hljóðstyrkurinn sé ekki að hár að hann trufli aðra.
 • Tæki í eigu nemanda er alfarið á hans ábyrgð.
 • Myndatökur eða myndbandsupptökur af starfsfólki og nemendum eru bannaðar nema með leyfi viðkomandi. Gildir það í öllu skólastarfi og hvar sem farið er á vegum skólans.
 • Brjóti nemandi reglur um notkun snjalltækja skal honum boðið að bæta ráð sitt samkvæmt uppbyggingaráætlun.

Góð samskipti

 • Skólinn er vinnustaður okkar allra, hver nemandi og starfsmaður á rétt á því að fá frið við leik og störf.
 • Samskipti skulu einkennast af gagnkvæmri virðingu og vinsemd.
 • Einelti er ekki liðið.

Heilbrigðar lífsvenjur

 • Neysla ávanabindandi efna svo sem tóbaks, nikótíns, áfengis og fíkniefna er bönnuð í skólanum og á skólalóð. Sömu reglur gilda á skemmtunum, skólabíl og ferðalögum á vegum skólans.
 • Skólanesti á að vera hollt og gott og í takt við leiðbeiningar embættis landlæknis sem er að finna hérna. Við sérstök tilefni geta kennarar heimilað að nemendur komi með annars konar nesti.
 • Neysla orkudrykkja og sælgætis er einnig bönnuð á skólatíma.

Ástundun náms og stundvísi

 • Við sinnum náminu af áhuga og samviskusemi.
 • Við mætum stundvíslega í kennslustundir.
 • Ætlast er til þess að nemendur í 1.-7. bekk séu í skólabyggingunni eða á skólalóð á skólatíma. Nemendum í 1. – 7. bekk er óheimilt yfirgefa skólalóð á skólatíma án leyfis. Undanskildar eru ferðir í íþróttahús, sundlaug og vettvangsferðir.

Reiðhjól og önnur hjólatæki

 • Nemendur sem koma á reiðhjólum og öðrum hjólatækjum í skólann skulu nota hjálm.
 • Reiðhjól og önnur hjólaleiktæki eru alfarið á ábyrgð nemenda og forráðamanna þeirra, einnig er það á ábyrgð forráðamanna að nemendur noti viðeigandi öryggisbúnað.
 • Ekki er leyfilegt að nota hjólatæki á skólalóð á skólatíma.

Skólareglurnar í heild sinni eru að finna hér.hér.