Markmið og leiðir

Markmið skólastarfsins og leiðir:

Markmið
Að veita nemendum góða almenna menntun
Að búa nemendur undir virka þátttöku í þjóðfélaginu
Að efla samskipti heimilis og skóla
Að styrkja sjálfsmynd og sjálfsöryggi nemenda
Að efla jákvætt hugarfar gagnvart námi og skólagöngu
Að þroska og þjálfa hug og hönd nemenda
Að efla siðgæðisþroska nemenda, umburðarlyndi og virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum.

Stefna skólans
Nemendur
Að skapa nemendum þær aðstæður í námi sem nýtast þeim best til að þroska hæfileika sína og getu og byggja upp heilbrigðan metnað.
Að kennarar og nemendur nýti sér umhverfi sitt í leik og starfi.
Að gera húsnæði skólans og umhverfi aðlaðandi og hlýlegt.
Að auka samvinnu og samræma starfshætti kennara á öllum stigum skólans.
Að skapa kennurum tækifæri til símenntunar.
Að uppræta einelti og ofbeldismál um leið og þau koma upp.
Að auka samábyrgð á skólahaldinu og efla traust og samkennd allra þeirra sem að skólastarfinu koma.

Starfsmenn
*Leitast skal við að skapa jákvætt starfsumhverfi sem m.a. birtist í því að starfsmenn fái sem bestar upplýsingar um réttindi sín og skyldur, en hlutverk allra er að sýna sem mesta fagmennsku í starfi.
*Jafnréttis skal gætt, ekki má mismuna fólki eftir aldri, kynferði, kynþætti, stjórnmálaskoðunum o.þ.h.
*Starfsmenn eigi kost á símenntun til að auka hæfni sína og fagmennsku. Vesturbyggð tekur þátt í ferðakostnaði kennara vegna þeirra námskeiða sem viðurkennd eru af Menntamálaráðuneyti og haldin af KHÍ eða öðrum viðurkenndum aðilum sem skólastjóri samþykkir. Skólastjóri metur þörf kennara á að þeir sæki námskeið á vegum skólans.
*Leitast verði við að hafa samráð við starfsmenn um þau málefni skólans sem þá varðar og reynt að hafa sem víðtækasta sátt um þau.

Foreldrar
Traust foreldra á skólanum og góð samvinna við þá er einn af lykilþáttum góðs gengis barna þeirra í námi. Því vill skólinn stuðla að því að hafa foreldrastarf sem best og jákvæðast á öllum sviðum.
Samband við foreldra byggir að mestu á fundum. Haustfundur er haldinn með foreldrum fljótlega eftir að skóli byrjar. Þá er námsefnið kynnt og vetrarstarfið rætt. Tvisvar á vetri eru svo viðtalsfundir með foreldrum einstakra nemenda, þar sem rædd er námsframvinda barna þeirra.

Skólaþróun
Grundvöllur skólaþróunar er skólanámskráin sem er í sífelldri endurskoðun. Skipulagt, kerfisbundið innra mat á skólastarfinu þarf alltaf að vera í gangi og leitast við að hafa fagmennsku í fyrirrúmi í öllum störfum.

Kennsluhættir
Skólinn er stofnun sem ætlað er að búa nemendur undir líf og starf í þjóðfélagi sem er í örri þróun.
Til að ná þeim markmiðum reynir skólinn að hafa sem fjölbreyttasta kennsluhætti. Þar má nefna dæmi eins og bekkjarkennslu, einstaklingskennslu og hópkennslu. Kennarar leitast við að sjá til þess að nemendur geti tileinkað sér nám með sem fjölbreyttustum leiðum, einir og sér, í samvinnu við aðra og stöku sinnum í samkeppni.
Bekkjarsett af fartölvum og spjaldtölvum eru í skólanum og hver kennari hefur eigin fartölvu til afnota.

Í 1. til 7. bekk er bekkjarkennsla ríkjandi þar sem umsjónarkennari kennir flestar greinar. Umsjónarkennarinn skipuleggur kennsluna, heimavinnu og námsmat. Hann sinnir foreldrastarfi, sinnir hverjum nemanda auk þess að hlúa að bekkjaranda og samskiptum. Mikil samvinna er meðal kennara á sömu stigum og samvinna milli skóladeilda fer vaxandi.

Í 8.til 10. bekk er fagkennsla meira ríkjandi. Mikilvægi umsjónarkennarans er þó enn jafn mikið en hann kennir að jafnaði ekki eins margar greinar innan bekkjarins og á yngri stigum. Í öllum greinum skal komið til móts við mismunandi þarfir nemenda með verkefnum við hæfi. Nemendum eru kennd sjálfstæð vinnubrögð, öflun upplýsinga og áhersla lögð á sjálfsábyrgð, ástundun og reglusemi.

Námsmat
Símat er í gangi allt skólaárið og fá nemedur niðurstöður þess við hver annarlok. Hæfniviðmið Aðalnámskrár eru grundvöllur námsmats og eftir þeim er farið.
Einkunnir að vori í 4. 7. 8. 9. og 10. bekk eru gefnar í bókstöfum, en í öðrum bekkjum gilda hæfnikort. Nánar er fjallað um kennsluhætti og námsmat með kennsluáætlunum.
Reglur og viðurlög

Skólareglur
1. Nemendum og starfsfólki ber að sýna gagnkvæma virðingu og tillitssemi, jafnt í orði sem í verki.
2. Mæta skal stundvíslega í kennslustundir með þau gögn sem nota skal hvern dag. Öll forföll ber að tilkynna eins fljótt og kostur er. Ef veðurútlit er tvísýnt meta foreldrar hvort þeir senda börn sín í skólann og láta vita í skólanum. Frí til eins dags veitir umsjónarkennari, en aðstoðarskólastjóri/deildarstjóri lengri leyfi.
3. Öllum ber að kappkosta að umgengni um skólann verði sem best. Ef nemandi veldur vísvitandi skemmdum á eigum skólans, starfsfólks eða skólafélaga sinna, ber honum að greiða þann kostnað sem af því hlýst.
4. Neysla sælgætis og gosdrykkja er bönnuð í skólanum, nema á skemmtunum.
5. Öll tóbaksnotkun, hverju nafni sem hún nefnist, áfengis og fíkniefnaneysla er bönnuð í skólanum, á lóð hans og í ferðum sem farnar eru á vegum hans.
6. Notkun farsíma er bönnuð á skólatíma.
7. Umsjónarkennurum er heimilt að setja bekkjarreglur í samvinnu við nemendur sína og skulu þær kynntar foreldrum.

Punktakerfi

Til að veita nemendum í 7.-10. bekk aðhald varðandi ástundun er í gildi punktakerfi.

Komi nemandi of seint í kennslustund fá nemendur 1 punkt eða hafi hann ekki með sér þau námsgögn sem við eiga 1 punkt, 2 punkta ef hann er fjarverandi og 3 ef honum er vísað úr tíma. Seint telst það ef nemandi kemur eftir að starf er hafið þar til 20 mín. eru liðnar af tímanum. Óheimil fjarvist er það ef nemandi mætir eftir að hálf kennslustund er liðin, eða mætir alls ekki og hefur ekki fengið leyfi fyrirfram.
Gefnar eru einkunnir fyrir ástundun og tengjast þær punktakerfi. 0 – 4 punktar einkunn 10, 5-8 punktar einkunn 9, 9-12 punktar einkunn 8, 13-16 punktar einkunn 7, 17-20 punktar einkunn 6, 21-25 punktar einkunn 5, 25-30 punktar einkunn 4.
Fari refsipunktar yfir ákveðin mörk er gripið til aðgerða: sjá feril agamála.

Alvarleg brot á reglum skólans.
Ef brot nemanda á skólareglum er mjög alvarlegt skal mál hans meðhöndlað strax eftir 5. þrepi, jafnvel getur strax orðið um tímabundna brottvísun að ræða eða önnur þau úrræði sem getið er um í 6. þrepi.

Ferill sérstakra mála

 Að trufla í kennslustund
Ef nemandi, – þrátt fyririr áminningu-, hegðar sér á þann hátt í kennslustund að óviðunandi er að mati kennara getur kennari gripið til þess úrræðis að vísa nemanda úr kennslustund og skal þá vísa nemandanum á gang fyrir framan dyr aðstoðarskólastjóra/deildarstjóra og tilkynna skólastjórnendum um málið.
Þar bíður nemandinn þar til viðkomandi kennari og/eða umsjónarkennari hafa rætt við nemandann og komist að niðurstöðu.
Nemandinn mætir ekki í kennslustund hjá þeim kennara, sem vísaði honum út, fyrr en niðurstaða er fengin. Að öðru leyti gilda reglur um feril agamála
 Að mæta ekki með námsgögn
Nemendur skulu mæta með tilheyrandi námsgögn í skólann hverju sinni, þ.m.t. viðeigandi fatnað í íþróttir og sund.
Ef misbrestur verður á þessu skal kennari:
o Veita nenanda fyrst munnlega áminningu, láta umsjónarkennara vita
o Ræða málið næst við nemanda og umsjónarkennara sem hefur samband við foreldra/forráðamenn og óskar eftir að þeir aðstoði nemandann við að mæta með námsgögn
o Senda nemanda heim eftir námsgögnum
o Senda nemanda heim eftir námsgögnum öðru sinni og fær nemandi þá fjarvist úr kennslustund
Í öllum tilfellum skal umsjónarkennari látinn vita. Að senda nemendur heim eftir námsgögnum á ekki við nemendur í 1. – 6. bekk en þar skal kennari hafa samband við foreldra/forráðamenn. Verði ekki bót ráðin á þá tekur við 2. þrep í ferli agamála.
 Að týna námsbókum
Skólinn sér nemendum fyrir kennslubókum. Þær eru eign skólans og ber nemendum að fara vel með þær. Nemandi skal skrá nafn sitt fremst í bókina og notkunarár. Nemandi skal skila kennslubókum til viðkomandi kennara þegar um er beðið. Týnist bók eða skemmist skal nemandi borga hana.
Önnur námsgögn, s.s. pappír og skriffæri, þurfa nemendur að útvega sér sjálfir.
 Reykingar
Reykingar eru stranglega bannaðar á skólatíma og hvar sem nemandi er á vegum skólans. Verði nemandi uppvís að reykingum tekur við 2. þrep í ferli agamála og síðan næstu þrep ef ekki verður ráðin bót á.
 Neysla áfengis eða annarra vímuefna.
Neyti nemandi áfengis eða annarra vímuefna er það brot á landslögum. Verði nemandi uppvís að neyslu eða meðferð slíkra efna á skólatíma eða í ferðalögum á vegum skóla telst það alvarlegt brot á reglum og er meðhöndlað beint eftir 5. eða 6. þrepi í ferli agamála eftir því sem við á.

Fjarvistir nemenda, veikindi og leyfi.

Tilkynning
Forföll nemenda skal foreldri/forráðamaður tilkynna á kennarastofu skólans að morgni skóladags eða um leið og við verður komið þann sama dag eða á Mentor.
Tilkynni foreldri/forráðamaður ekki forföll nemanda í síðasta lagi fyrir hádegi næsta kennsludag verður litið svo á að um óheimila fjarvist sé að ræða.
Ef nemandi, sem er veikur í lok skólaviku, er enn veikur í byrjun nýrrar skólaviku, skal aftur tilkynnt til skólans um veikindi hans á mánudagsmorgni.
Styttri leyfi
Þurfi nemandi stutt leyfi vegna læknisferða eða annars ámóta skal foreldri/forráðamaður tilkynna það til kennarstofu skólans fyrirfram og ekki síðar en þann sama dag.
Lengri leyfi
Leyfi fyrir nemanda í einn til tvo daga geta foreldrar/forráðamenn sótt um til umsjónarkennara nemandans. Ef foreldrar/forráðrmenn óska eftir lengra leyfi fyrir nemanda en einn dag geta þeir sótt um það til skólastjóra, aðstoðarskólastjóra eða deildarstjóra. Jafnframt skulu þeir fylla út sérstakt umsóknareyðublað sem fæst á kennarastofu skólans einnig er hægt að prenta það út af heimasíðu skólans.
Fari samanlagðar fjarvistir ( fjarvist, veikindi,leyfi) yfir 20 daga á önn, verður máli viðkomandi nemenda vísað til umfjöllunar í Nemendaverndarráði.

Óstundvísi og óheimilar fjarvistir.

Fjarvistir
Nemendur skulu mæta á réttum tíma í allar kennslustundir. Mæti nemandi ekki í
kennslustund án gildra skýringa skal umsjónarkennari strax hafa sambandi við
foreldra/forráðamenn.
Of seint
Komi nemandi ítrekað of seint í kennslustund skal umsjónarkennari hafa samband við
foreldra/forráðamenn eins oft og þurfa þykur en þó ekki síðar en eftir að nemandi hefur
mætt fimm sinnum of seint á önn.
Komi nemandi tíu sinnum of seint á önn skal honum vísað til
aðstoðarskólastjóra/deildarstjóra, sem hefur samband við foreldra/forráðamenn.

Ef ekki verður breyting til batnaðar skal umsjónarkennari vísa málinu til nemendaverndarráðs.

Sérkennsla.

Hugtakið “skóli fyrir alla” höfum við haft að leiðarljósi í Patreksskóla en það þýðir að sérhver nemandi ætti að fá nám við sitt hæfi. Ekki eru allir nemendur sem geta tileinkað sér nám í almennri bekkjarkennslu og/eða almennt námsefni og fá þeir þá sérkennslu og jafnvel stuðning við heimanám.

Viss hluti nemenda fær sérkennslu og stuðning og hefur Helga Gísladóttir sérkennari aðallega séð um sérkennsluna. Hún leggur einnig greiningarpróf fyrir nemendur sem greinir lestrar- og stafsetningarörðugleika annars vegar og stærðfræðiörðugleika hins vegar.
Markmiðið með sérkennslunni er að nemendur geti tileinkað sér námið sem fer fram í kennslustofunni og náð þeim námsmarkmiðum sem sett eru og að nemendum líði vel í skólanum sem er ekki síður mikilvægt. Lesverið í Patreksskóla er vel búið sérkennslugögnum sem allir skólarnir hafa aðgang að.

Móttaka nýrra nemenda.

• Nemandi og foreldrar mæta hjá aðstoðarskólastjóra/deildarstjóra og innritast á formlegan hátt. Þeim sýnt húsnæðið.
• Nemandi hittir umsjónarkennara, fær stundaskrá, skólavísi og ræðir námsgögn og önnur atriði. Ákveðið er hvenær nemandi mæti. Bekkurinn undirbúinn. Kennari getur skipað ,,leiðsögunemendur” með nýja nemandanum, honum til aðstoðar fyrstu vikurnar
• Kennari hefur samband við fyrri umsjónarkennara nemanda til að afla frekari upplýsinga. Kennari sér um að upplýsingar um nýjan nemanda berist til sérgreinakennara.
• Kennari hefur samband við heimilið fyrstu vikurnar til að fylgjast með aðlögun nemandans.