Við grunnskóla skal starfa skólaráð sem er samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélags um skólahald. Skólastjóri hefur forgöngu um stofnun skólaráðs. Hann situr í skólaráði og stýrir starfi þess. Auk skólastjóra sitja í skólaráði tveir fulltrúar foreldra, tveir fulltrúar kennara, einn fulltrúi annars starfsfólks skólans, tveir fulltrúar nemenda og einn fulltrúi grenndarsamfélags eða viðbótarfulltrúi úr hópi foreldra og valinn af öðrum fulltrúum skólaráðs. Staðgengill skólastjóra stýrir skólaráði í forföllum skólastjóra.
Skólaráð gerir sér starfsáætlun og í henni kemur fram hversu oft fundir verða haldnir, hvenær og hvar. Þar er einnig tilgreint hvenær skólaráðið ætlar að halda opinn fund fyrir skólasamfélagið um málefni skólans og annan með stjórn nemendafélagsins. Ef skólaráðið vill leggja áherslu á stefnu varðandi tiltekinn málaflokk, svo sem sérstaka námsgrein, samskipti, líðan nemenda, umhverfismál eða annað, ætti það að koma fram í starfsáætluninni.
Starfsáætlun skólaráðs Patreksskóla 2020-2021.