Stefnur og verkefni Patreksskóla

Heilsueflandi skóli

♥ Stuðlar að góðri heilsu og líðan nemenda og starfsfólks skólans.

♥ Bætir námsárangur nemenda.

♥ Örvar til þátttöku og ábyrgðar með virðingu fyrir lýðræðislegum vinnubrögðum og mannréttindum.

♥ Sér til þess að skólaumhverfið sé öruggt og hlúi að nemendum og starfsfólki skólans.

♥ Eflir nemendur í námi og félagslífi og til að vera virkir þátttakendur í hvoru tveggja.

♥ Tengir saman heilbrigðis- og menntamál.

♥ Tekur á heilsu og vellíðan alls starfsfólks skólans.

♥ Vinnur með foreldrum og sveitarstjórn.

♥ Fléttar heilsu og velferð saman við daglegt skólastarf, námskrá og árangursmat.

♥ Setur sér raunhæf markmið sem byggjast á nákvæmum upplýsingum og traustum vísindalegum gögnum.

♥ Leitast við að gera æ betur með því að fylgjast sífellt með, meta stöðuna og endurmeta aðgerðaáætlanir.

Uppbyggingarstefnan

Uppbyggingarstefnan er uppeldisstefna Patreksskóla. Ávallt er gert ráð fyrir uppbyggjandi samskiptum í skólastarfi.

Innleiðing Uppbyggingarstefnunar hófst skólaárið 2010-2011. Uppbyggingarstefnan (Restitution) leggur áherslu á uppbyggileg samskipti fremur en viðurlög. Á ábyrgð fremur en hlýðni. Á virðingu fremur en stjörnugjöf. Rannsóknir á skólastarfi hafa sýnt að þegar kennarar og nemendur sýna hver öðrum gagnkvæma virðingu batna skilyrði til að læra og einkunnir fara hækkandi. Uppbygging er reist á kenningum um hæfni manns til sjálfstjórnar, hæfni til að stjórna innri skynjun á ytri veruleika. Uppbygging kennir börnum sjálfsaga og leggur rækt við hæfni þeirra til að taka ábyrgð á eigin orðum og gerðum.
Uppbyggingarstefnan er heildstæð nálgun sem notast er við með það að markmiði að skapa umhyggjusamt skólasamfélag. Meginmarkmið nálgunarinnar er að ryðja úr vegi gömlum gildum um refsingar sem aðferð við að takmarka aga- og hegðunarvanda í skólum og styðjast frekar við að gera sem mest úr einstaklingnum sjálfum, hans innri persónu, áhugahvöt, lífsgildum og markmiðum.
Aðferðir Uppbyggingarstefnunnar efla félagsfærni, tilfinningaþroska, sjálfstæði og sjálfsvirðingu nemenda og því er mikilvægt að foreldrar taki þátt í því starfi sem byggt er upp innan skólans.
Ef um óásættanlega hegðun er að ræða hjá nemendaum er þó gripið til sértækra aðgerða samkvæmt skólareglum.

Uppbyggingarstefnan byggir á kenningum um hæfni einstaklings til sjálfstjórnar, hæfni hans til að tengja saman persónuleg lífsgildi og þann veruleika sem hann býr við. Hún kennir sjálfstjórn, sjálfsaga og eflir hæfni hans til að taka ábyrgð á eigin orðum og gjörðum. Lögð er áhersla á að byggja einstaklinginn upp, að hann þekki þarfir sínar og uppfylli þær án þess að skaða aðra.