Saga Patreksskóla

Patreksskóli

Skólahald á sunnanverðum Vestfjörðum á sér langa sögu eða allt frá því að fyrsta skólahúsið var reist á Patreksfirði árið 1900. Síðan spruttu upp fleiri skólar, margir fámennir en um síðustu aldamót voru fjórir skólar í Vesturbyggð: Bíldudalsskóli, Patreksskóli, Birkimelsskóli og Örlygshafnarskóli. Skólahald í Örlygshöfn lagðist af 2002 og um það leyti voru hinir þrír sameinaðir undir einni stjórn sem Grunnskóli Vesturbyggðar. Frá því skólaárið 2016-2017, eru Patreksskóli og Bíldudalsskóli aftur reknir sem sjálfstæðar stofnanir. Samstarf er við leikskólann Araklett á Patreksfirði og við Framhaldsdeild Fjölbrautaskóla Snæfellinga sem er með starfsstöð á Patreksfirði. Í framhaldsdeildinni geta nemendur af suðursvæði Vestfjarða stundað nám á framhaldsskólastigi undir stjórn kennara í Grundarfirði með aðstoð upplýsingatækni. Nemendur stunda námið að mestu í dreifnámi, sem er bæði fjarnám og staðbundið nám.

Samstarf við Tónlistarskóla Vesturbyggðar er á þann hátt að kennarar tónlistarskólans koma í skólann og þá geta nemendur sótt einkatíma í hljóðfæraleik á skólatíma.

Lengd viðvera er ætluð nemendum í 1. til 4. bekk. Lengd viðvera er á skóladögum til kl. 16:00. Starfsmenn lengdrar viðveru sjá til þess að senda nemendur í tónlistartíma og íþróttatíma.