Kennslufræðileg stefna og viðmið

Viðmið um hlutfall kennsluhátta og námsmats

Starfsfólk Patreksskóla hefur sett sér það markmið að bjóða upp á framúrskarandi skólastarf og tryggja meðal annars að fjölbreyttir kennsluhættir og námsmat birtist með skýrum hætti í skólastarfinu. Kennarar hafa sett sér viðmið um hlutfall kennsluhátta og námsmats til að koma sem best til móts við fjölbreyttar þarfir nemendanna.

Kennsluaðferðir

Kennara hafa einsett sér að kennsluaðferðir séu fjölbreyttar. Kennsluaðferðir við Patreksskóla teljast fjölbreyttar þegar aðferðir aðrar en bekkjarkennsluaðferðir eru markvisst notaðar 75% af náms og kennslutíma nemenda. Bekkjarkennsluaðferðir séu ekki notaðar í meira en 25% af náms og kennslutíma allra árganga. Sýnt verði fram á hlutfall kennsluhátta í námsvísum og kennsluáætlunum.

Námsmat

Samhliða viðmiðum um fjölbreyttar kennsluaðferðir hafa kennarar sett viðmið um fjölbreytt námsmat. Gengið er útfrá að leiðsagnarmat sé almennt nýtt til þess að leggja mat á þau fjölbreyttu verkefni sem verða til með fjölbreyttum kennsluaðferðum enda er kennsla og námsmat órjúfanleg heild. Leiðsagnarmat á að stuðla að því að nemendur læri af áhuga og nám snúist ekki um ytri umbun eða samkeppni. Nemendur fái tækifæri til að vera virkir þátttakendur í eigin námi og beri mikilvæga ábyrgð. Samvinna er í fyrirrúmi á milli nemenda, foreldra og kennara. Sýnt verði fram á hlutfall fjölbreytts námsmats í námsvísum og kennsluáætlunum.

Gert er ráð fyrir að námsmatið fari fram jafnt og þétt yfir allan veturinn og lítil áhersla sé lögð á lokamat. Miðað er við að að minnsta kosti 75% alls námsmats fari fram með fjölbreyttum aðferðum sem falla undir leiðsagnarmat – til einföldunar, aðferðum sem gera öllum nemendum kleift að ná markmiðum sínum með tímanum. Kennarar hafa sett sér að leggja sig fram um að byggja upp markvisst og fjölbreytt safn sönnunargagna um samfelldar framfarir á mörgum sviðum.

Lokamati verði ekki meira en 25% af því mati sem fram fer í skólanum.

Einstaklingsmiðað nám

Kennarar í Patreksskóla hafa einnig einsett sér að skara fram úr við útfærslu einstaklingsmiðaðs náms. Fámennur skóli hefur þá sérstöðu að hafa árum saman kennt árgöngum saman og tekið mið af þörfum hvers og eins þó það hafi ekki verið formlega sett fram til þessa.

  • Flestir eða allir nemendur setja sér áætlanir í samvinnu við kennara og forsjáraðila með markmiðum fyrir námslotu eða tímabil.
  • Sama þema fyrir stærri hópa en viðfangsefnin eru mismunandi ýmist eftir áhuga eða getu.
  • Námsaðferðir eru í takt við markmið hvers og eins nemanda og nemendur þekkja smán saman sinn námsstíl.
  • Hópaskipting er fjölbreytt og áhersla lögð á samvinnu jafnt sem sjálfstæð vinnubrögð.
  • Námsmat er einstaklingsmiðað og nemandinn er virkur þátttakandi í því.
  • Sérstaklega er fylgst með framförum hvers og eins og brugðist við ef framgangur framfara breytist.

(Byggt á Matstæki um einstaklingsmiðað nám frá 2005; Reykjavíkurborg, kennara og nemendastoð, birtist meðal annars hér)

Uppfært í janúar 2019

https://docs.google.com/document/d/1iPEy2QdDcsAneK_PsZstIAoyZY4JHsmaM44nFHJS1p4/edit#