Sýn og stefna – grunnþættir menntunar

Hlutverk skólans

Skólinn hefur það hlutverk að veita menntun eins og hún gerist best á hverjum tíma, að vellíðan, jákvæðni, stuðningur og vingjarnleiki einkenni öll samskipti.

Einkunnarorð

Jákvæðni – Virðing – Samvinna

Sýn skólans/stefna

Námssamfélag sem vinnur saman að því að nemendur geri ávallt sitt besta og láti gott af sér leiða með verkum sínum.

Framtíðarsýn

Gleði og góður skólabragur. Við vinnum að því að nemendur þekki sjálfa sig og sína styrkleika, með gott sjálfstraust, trú á eigin getu og horfi bjartsýn til framtíðar.

Sýn og stefna var endurskoðuð þann 23. janúar síðast liðinn og samþykkt á starfsmannafundi í kjölfarið.  

 • Kennslufræðileg stefna: Hlutfalla fjölbreyttra kennsluhátta og fjölbreytts námsmats sé 75%. Sýnt sé fram á hlutfall kennsluaðferða og námsmats í námsvísum skólans og kennsluáætlunum/lotu lýsingum.
 • Uppeldisfræðileg stefna: Uppbyggingarstefnan stýrir því viðhorfi sem er ríkjandi í uppeldisfræðilegri stefnu Patreksskóla. Uppeldisfræðileg stefna skólans birtist fyrst og fremst í skólareglum skólans, viðhorfi starfsmanna til nemenda.

Grunnþættir

Kennarar hafa skilgreint með hvaða hætti grunnþættir aðalnámskrár birtast í starfi skólans eins og það er í dag. Til þess að góða hugmyndir glatist ekki er haldið til haga viðfangsefnum er tengjast grunnþáttum sem hafa áður verið liður í skólastarfi Patreksskóla og þykja góður efniviður í skólastarfið. Áætlað er að endurskoða hvernig grunnþættir birtast í skólastarfinu á hverju hausti til að tilefni gefist til að taka inn góðar hugmyndir reglulega en hvíla aðrar.

„Menntastefna nýrra aðalnámskráa er reist á sex grunnþáttum sem varða starfshætti, inntak og umhverfi náms á öllum skólastigum. Þeir eru læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun.

Með þessum sex grunnþáttum er lögð áhersla á að rækta með markvissum hætti þá þekkingu, leikni og viðhorf sem styrkir getu einstaklinga í framtíðinni til að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi.

Hugmyndirnar að baki grunnþáttunum eiga að endurspeglast í starfsháttum skóla, samskiptum og skólabrag. Þeir skulu vera sýnilegir í skólastarfinu öllu og koma fram í inntaki námsgreina og námssviða, bæði hvað varðar þá þekkingu og leikni sem börn og ungmenni skulu afla sér“

(Mennta- og menningamálaráðuneytið, sótt 25. apríl 2018 http://www.namtilframtidar.is/#!/nams-til-framtidar).

 

Sjálfbærni

„Sjálfbærni snýst um umhverfi, ábyrgð, virðingu og lýðræðisleg vinnubrögð og réttlæti í nútíð og framtíð. Í sjálfbærnimenntun er lögð áhersla á skilning á þeim takmörkunum sem vistkerfi jarðar setur manninum, jöfnuð innan og milli kynslóða, skynsamlega nýtingu auðlinda og sanngjarnri skiptingu þeirra. Forsenda fyrir sjálfbæru samfélagi eru virkir borgarar sem eru meðvitaðir um gildi, viðhorf og tilfinningar sínar gagnvart þessum þáttum.

Efnahagskerfi samfélaga skipa stórt hlutverk þegar kemur að skynsamlegri nýtingu auðlinda og sanngjarnri skiptingu þeirra. Þannig er mikilvægt að efnahagsvöxtur byggi hvorki á, né leiði til, óhóflegs ágangs á náttúruna. Framleiðsla og neysla eru órjúfanlegir þættir samfélags og um leið efnahags hvers einstaklings. Skilningur á eigin vistspori, vistspori samfélaga og þjóða stuðlar að sjálfbærri þróun og hófsemi.

Í sjálfbærnimenntun felst einnig að börn og ungmenni takist í námi sínu á við margvísleg álitamál og ágreiningsefni. Kennsla og starfshættir innan skólans skulu fléttast saman við það viðhorf að markmið menntunar sé geta til aðgerða. Í því felst þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum og því að stuðlað sé að áhuga og vilja til þess að börnin og ungmennin taki þátt í samfélaginu“.

(Mennta- og menningamálaráðuneytið, sótt 25. apríl 2018, http://www.namtilframtidar.is/#!/sjalfbaerni).

 

Svona birtist sjálfbærni í skólastarfi Patreksskóla.

 

 • Haustferð
 • Vettvangsferðir
 • Útikennsla
 • Grænfáni
 • Endurvinnsla,
 • Grænu skrefin
 • Umhverfisnefnd
 • Umhverfisstefna
 • Útivistardagur
 • Dagur íslenskrar náttúru
 • Unnið að því að sporna við matarsóun
 • Ávaxtastund
 • Unicef hlaup
 • Ísi ólympíuhlaup
 • Gengið í skólann
 • Gróðursetning
 • Ruslatínsludagur

 

Hér koma atriði sem við myndum gjarnan vilja að væri hluti af sjálfbærni í skólastarfi Patreksskóla.

 • Umhverfisstefna, nokkurra ára stefna
 • Atvinnulífið og og málstofa
 • Sveitaferð fyrir fleiri bekki
 • Allir bekkir starfskynning
 • Foreldra kynna störf

 

Heilbrigði og velferð

„Heilbrigði byggist á andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Í skólum þarf að skapa jákvæðan skólabrag og heilsueflandi umhverfi þar sem markvisst er hlúð að þroska og heilbrigði frá ýmsum hliðum. Helstu þættir heilbrigðis sem leggja þarf áherslu á eru: jákvæð sjálfsmynd, hreyfing, næring, hvíld, andleg vellíðan, góð samskipti, öryggi, hreinlæti, kynheilbrigði og skilningur á eigin tilfinningum og annarra.

Mikilvægt er að skólinn taki mið af þörfum allra barna og ungmenna á einstaklingsbundinn hátt. Allir þurfa tækifæri til að njóta styrkleika sinna sem er lykilþáttur í að byggja upp jákvæða sjálfsmynd. Mörg áhugamál barna og ungmenna stuðla að heilbrigði og geta nýst í þessu samhengi. Með því að gefa áhugasviðum þeirra rými í skólastarfinu gefst tækifæri til að vinna út frá styrkleikum og áhuga, byggja upp jákvæða sjálfsmynd og efla þannig heilbrigði.

Í skóla, sem leggur áherslu á daglega hreyfingu og markvisst hreyfiuppeldi, er lagður grunnur að líkamlegri, andlegri og félagslegri velferð til lífstíðar. Veita þarf fræðslu um hreyfingu, efla hreyfifærni og skapa öruggt umhverfi sem hvetur alla til hreyfingar“.

(Mennta- og menningamálaráðuneytið, sótt 25. apríl 2018,http://www.namtilframtidar.is/#!/heilbrigdi-og-velferd)

 

Svona birtist heilbrigði- og velferð í skólastarfi Patreksskóla.

 • Útikennsla og útivera
 • Íþróttir
 • Ísi ólympíuhlaup
 • Ganga i skólann
 • Eineltisáætlun
 • Gróðursetning
 • Forvarnir ýmsar
 • Tóbakslaus dagur
 • Skólahjúkrun
 • Félagsþjónusta
 • Sálfræðingur
 • Talmeinafræðingur
 • Trappa
 • Skólaíþróttir
 • Ávaxtastund

 

Hér koma atriði sem við myndum gjarnan vilja að væri hluti af heilbrigði- og velferð í skólastarfi Patreksskóla.

 • Fjölbreyttari og næringaríkari mat
 • Hugleiðsla
 • Núvitund
 • Ávaxtastund á alla bekki
 • Heilsueflandi skóli
 • Iðjuþjálfi
 • Þroskaþjálfi
 • Nemendaverndarráð

Lýðræði og mannréttindi

„Lýðræði er mikilvægt á vettvangi skólans. Í fyrsta lagi þurfa skólar að taka mið af því að barna og ungmenna bíður að taka þátt í lýðræðissamfélagi og því er mikilvægt að börn læri um þess háttar samfélög. Í öðru lagi þurfa skólar að taka mið af því í öllum starfsháttum að borin sé virðing fyrir manngildi hvers og eins. Gert er ráð fyrir því að börn og ungmenni læri til lýðræðis með því að læra um lýðræði í lýðræði.

Mikilvægt er að í öllu námi, viðfangsefnum skólastarfsins og aðferðum sé tekið tillit til áhuga nemenda og ábyrgðar þeirra á eigin námi. Einnig þarf að efla þekkingu á grundvallarréttindum barna og fullorðinna með hliðsjón af íslenskri löggjöf og alþjóðasamningum.

Samfélagsgreinar og lífsleikni eru kjölfesta þekkingar á lýðræði og mannréttindum og viðhorfa til sömu þátta. Lýðræðislegur hugsunarháttur á þó við í öllum námsgreinum. Lýðræðislegt gildismat verður ekki mótað nema allar námsgreinar og öll námssvið séu notuð til þess“.

(Mennta- og menningamálaráðuneytið, sótt 25. apríl 2018,http://www.namtilframtidar.is/#!/lydraedi-og-mannrettindi)

 

Svona birtist lýðræði og mannréttindi í skólastarfi Patreksskóla.

 • Bekkjarreglur
 • Skólareglur
 • Barnasáttmálinn
 • Lífsleikni
 • Bekkjarfundir
 • Skólaráð
 • Foreldrafélag
 • Nemendaráð

 

Hér koma atriði sem við myndum gjarnan vilja að væri hluti af lýðræði og mannréttindi í skólastarfi Patreksskóla.  

 • Skólasvið alþingis
 • Menningarferð
 • Heimsmarkmiðin
 • Jól í skókassa
 • Unicef
 • Hlúa að nærumhverfinu
 • Grænfáninn
 • Erlendir nemendur og upplýsingar fyrir þá
 • Móttökuáætlanir
 • Tákn með tali
 • Aðgengi fyrir fatlaða

Jafnrétti

„Markmið jafnréttismenntunar er að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, víðsýnis og jafnréttis.

Menntun til jafnréttis fjallar um hvernig aldur, búseta, fötlun, kyn, kynhneigð, litarháttur, lífsskoðanir, menning, stétt, trúarbrögð, tungumál, ætterni og þjóðerni geta skapað mismunun eða forréttindi í lífi fólks. Við undirbúning framtíðarstarfsvettvangs er mikilvægt að opna augun fyrir kynskiptum vinnumarkaði og stuðla að því að námsval kynjanna verði minna kynbundið en hingað til. Það varðar miklu að ekki halli á kynin í þeim viðfangsefnum sem nemendur fást við heldur grundvallist þau á jafnræði og jafnrétti.

Jafnréttismenntun vísar þannig í senn til inntaks kennslu, námsaðferða og námsumhverfis. Gæta verður þess að nemandinn samþætti þekkingu sína og leikni, samtímis því sem hann þjálfast í samskiptum sem byggjast á virðingu fyrir mannréttindum og jafnrétti“.

(Mennta- og menningamálaráðuneytið, sótt 25. apríl 2018, http://www.namtilframtidar.is/#!/jafnretti)


Svona birtist
jafnrétti í skólastarfi Patreksskóla.

 • Kynjajafnrétti
 • Jafnréttisáætlun
 • Skóli án aðgreiningar
 • Barnasáttmálinn
 • Skólakór
 • Unglingabjörgunarsveit

 

Hér koma atriði sem við myndum gjarnan vilja að væri hluti af jafnrétti í skólastarfi Patreksskóla.  

 • Fjölbreytt námsumhverfi og námsgögn

 

Læsi

„Læsi höfðar til þess að hver einstaklingur hafi hæfni til að skynja og skilja umhverfi sitt og samfélag á gagnrýninn hátt og taka þátt í að móta það. Meginmarkmið læsis er að nemendur séu virkir þátttakendur í að skapa eigin merkingu og bregðast á persónulegan og skapandi hátt við því sem þeir lesa með hjálp þeirra miðla og tækni sem völ er á.

Hefðbundið læsi tengist kunnáttu og færni sem fólk þarfnast til þess að geta fært hugsun sína í letur og skilið prentaðan texta. Læsi í víðum skilningi vísar hins vegar til þess að nemendur nái tökum á ýmsum táknkerfum og miðlum. Þannig felur læsi á tölur í sér hæfni til að lesa úr, tjá sig um og nýta sér til gagns tölulegar upplýsingar, læsi á upplýsingar tekur m.a. til upplýsingatækni þar sem mikilvægt er að allir geti aflað gagna, flokkað, unnið úr, notað og miðlað upplýsingum á gagnrýninn og skapandi hátt og læsi á fjölmiðla gerir nemendum kleift að greina upplýsingar ólíkra miðla svo þeir geti sjálfir lagt gagnrýnið mat á þær“.

(Mennta- og menningamálaráðuneytið, sótt 25. apríl 2018, http://www.namtilframtidar.is/#!/laesi)

 

Svona birtist læsi í skólastarfi Patreksskóla.

Læsi

 • Yndislestur
 • Miðlalæsi
 • PALS
 • Sðgengi að tölvum
 • Bókasafn
 • Lesferill
 • Stóra upplestrarkeppnin
 • Dagur íslenskrar tungu
 • Bókarýni
 • Kynningar á verkefnum með tjáningu og framsögn

 

Hér koma atriði sem við myndum gjarnan vilja að væri hluti af læsi í skólastarfi Patreksskóla.  

 • Fjármálalæsi
 • MMS hljóðbækur
 • Hljóðbókasafnið
 • Menningarlæsi
 • Samskiptalæsi

 

Sköpun

„Sköpun byggist á gagnrýninni hugsun og aðferðum sem opna sífellt nýja möguleika og því skiptir sköpunarferlið ekki síður máli en afrakstur verksins. Í sköpuninni felst hagnýting hugmynda og mótun viðhorfa, gildismats og hæfni. Vinnubrögð í listsköpun og vísindum einkennast oft af sköpunargleði, frumkvæði og frumleika. Þannig vinnubrögð er æskilegt að sjá í öllu námi og skólastarfi.

Skapandi skólastarf felur m.a. í sér að nemendur hafa tækifæri til að hafa áhrif á skólastarfið s.s. námsefni, skipulag, námsmat, mötuneytismál, skemmtanir o.fl. Þar er ýtt undir forvitni, spurningar og heilabrot, nemendum líður vel og þeir eru hvattir til að gera margvíslegar tilraunir. Litið er á mistök sem tækifæri til að læra af reynslu og nýir miðlar og ný tækni eru nýtt á áhugaverðan og skapandi hátt. Verk nemenda eru sýnileg og geta orðið öðrum nemendum og kennurum innblástur og hvatning.

Sköpun snýst ekki eingöngu um nýtt og frumlegt heldur og hagnýtingu þess sem fyrir er. Hún snýst þannig um lausnir viðfangsefna og leit að nýjum möguleikum. Sköpun er mikilvægur grunnur að því að horfa til framtíðar og móta sér framtíðarsýn, taka þátt í mótun lýðræðissamfélags og skapa sér hlutverk innan þess“.

(Mennta- og menningamálaráðuneytið, sótt 25. apríl 2018, http://www.namtilframtidar.is/#!/skopun)

 

Svona birtist sköpun í skólastarfi Patreksskóla.

 • Danskennsla
 • Árshátið
 • Þorrablót
 • Smiðjur
 • Afurðir verkefna sýnileg

Hér koma atriði sem við myndum gjarnan vilja að væri hluti af sköpun í skólastarfi Patreksskóla.  

 • Nýsköpun
 • útikennsla
 • Tilraunir
 • Þemavinna
 • Verkleg kennsla í meira mæli

Vinnuskjal: Endurskoðað í janúar 2019 og á vordögum sama árs

https://docs.google.com/document/d/1OL8XArzwrFq3x9hza4LUpShsWzBcYUWbU8twLNTDdO4/edit