Skólanámskrá

Samkvæmt 29. gr. grunnskólalaga ber hverjum grunnskóla að gefa út skólanámskrá og starfsáætlun. Skólastjóri er ábyrgur fyrir gerð þeirra og skal semja þær í samráði við kennara. Skólanámskrá er nánari útfærsla á aðalnámskrá grunnskóla um markmið, inntak náms og námsmat, starfshætti og mat á árangri og gæðum skólastarfs. Skólanámskrá tekur mið af sérstöðu grunnskóla og aðstæðum og skal endurskoða reglulega.

Í árlegri starfsáætlun er m.a. gerð grein fyrir skóladagatali, þ.m.t. lengd jólaleyfis, páskaleyfis og annarra vetrarleyfa, starfsáætlun nemenda, skólareglum, stoðþjónustu, félagslífi og öðru því sem varðar starfsemi skólans ár hvert. Þar skal birta upplýsingar um starfslið skólans, stjórnkerfi, mögulegan stuðning fyrir nemendur af ýmsu tagi og almennar hagnýtar upplýsingar um skólahald hvers skólaárs. Starfsáætlun skóla skal árlega lögð fyrir skólanefnd til staðfestingar sem staðfestir gildistöku hennar þegar ljóst er að hún hafi verið unnin í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá, kjarasamninga og ákvarðanir sveitastjórnar um fyrirkomulag skólahalds. 

Markmið og skólastefna

Stefna Patreksskóla, sjá einnig skólastefnu Vesturbyggðar

  • Að faglegur metnaður móti allt skólastarf og þá þjónustu sem sveitarfélagið veitir skólanum.
  • Að allar deildir skólans starfi saman sem ein heild þar sem einstaklingnum er sýnd umburðarlyndi og virðing.
  • Að allir nemendur njóti alhliða menntunar við hæfi hvers og eins og hvatningar til náms í samræmi við þroska og áhuga.
  • Að lögð verði áhersla á vellíðan allra sem í skólanum starfa og að þeim sé skapað vistlegt og örvandi námsumhverfi.
  • Að vinnudagur nemenda í skólanum skiptist með ákveðnum hætti í bóklegt nám, verklega þjálfun og iðkun lista og þannig sé stuðlað að fjölbreyttu og metnaðarfullu skólastarfi.
  • Að skólinn sé í virkum tengslum við umhverfi sitt, náttúru, atvinnulíf og menningu byggðarlagsins.
  • Að í skólanum verði farið eftir Uppbyggingarstefnunni – uppeldi til ábyrgðar.
  • Að stefna í skólamálum sé í stöðugri endurskoðun og þróun.

Skólanámskrá Patreksskóla skiptist í þrjá hluta:

I Starfsáætlun

II Skólavísir/kennsluáætlanir (persónuleg staða hvers nemenda er að finna á hæfnikorti í Mentor).

III Starfsmannahandbók

Gústaf Gústafsson, skólastjóri.