Skóladagatal

Skóladagatal Patreksskóla
Samkvæmt skóladagatali eru skóladagar nemenda 180. Skólaárið 2019-2020 eru alls fjórir skertir dagar, en það eru dagar þegar nemendur mæta aðeins hálfan eða hluta úr degi. Þetta eru m.a. skólasetningardagur og skólaslitadagur, auk tveggja foreldraviðtalsdaga. Jólaleyfi nemenda er frá 20. desember til og með 2. janúar. Páskaleyfi nemenda er frá 6. – 13. apríl.

Skipulagsdagar kennara eru fimm á skólaárinu.
Skóladagatalið er alltaf aðgengilegt á heimasíðu skólans.

Sérstakir dagar
Þemadagar
Sérstakir þemadagar eru að nokkrum sinnum á skólaárinu. Þemadagarnir eru undirbúnir á árgangafundum en hver deild skipuleggur sitt þema. Skóladagurinn er brotinn upp og stundaskrá og bekkjarskipan er ýtt til hliðar meðan unnið er að sameiginlegu þema undir stjórn umsjónarkennara. Þemadagar í febrúar eru helgaðir íslenskri menningu og siðum og enda þeir með þorrablóti.
Að öðru leyti geta kennarar unnið með ákveðin þemu innan bekkjar eða stigs og lagt áherslu á að nemendur vinni í hópum að ákveðnu verkefni í lotum/smiðjum.

Tveir vinadagar eru haldnir á hverju skólaári til að vinna að góðum skólabrag. Eineltisteymið skipuleggur þennan dag.

Dagur íslenskrar tungu er 16.nóvember ár hvert í tilefni af afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar. Þá er unnið sérstaklega með íslenska tungu, ljóð, upplestur og framsögn. Þetta er skipulagt af umsjónarkennurum.
Útivistardagur er haldinn að hausti og að vori. Þá fara allir nemendur heilan dag í útivist, leiki og gönguferðir. Íþróttakennari ásamt nemendum í 10.bekk skipuleggja.
Skógræktardagur á hverju vori þá gróðursetja nemendur tré á ákveðnu skógræktarsvæði. Allir nemendur og kennarar taka þátt, fara með skóflur og nesti eftir löngu frímínútur. Að loknum skógræktardegii er grillveisla. Sérkennslustjóri skipuleggur.
Forvarnardagurinn er haldin að frumkvæði forseta Íslands. Það eru nemendur í 9.bekk sem taka þátt ár hvert. Sýnt er myndband um forvarnir. Fulltrúi frá íþrótta- eða æskulýðssamtökum kemur í heimsókn og umræðuhópar nemenda skila inn ályktunum. Skólastjórar og umsjónarkennari skipuleggja.

Öskudagur er öðruvísi dagur og nemendur og starfsfólk mætir í grímubúningum. Kennt er fyrstu tímana en síðan er farið í salinn og kötturinn sleginn úr tunninni. Að lokum er farið í 2-3 fyrirtæki og sungið fyrir sælgæti. Kennarar undirbúa söng. Deildarstjórar skipuleggja annað. Skipulag öskudagsins getur breyst milli ára og fer eftir aðstæðum hverju sinni.
Heimsókn 5.bekkja á Barðastönd í maí. Nemendur í GV og Tálknafirði fara saman í rútu á Barðaströnd og eyða þar dagstund með kennurum sínum. Farið er í heimsókn á sveitabæi, grillað o.fl. Umsj.kennarar 5. bekkja Patreks – og Bíldudalsskóla skipuleggja.
Ávaxtadagur. Mælst er til að nemendur hafi með sér ávexti/grænmeti einn dag í viku t.d. á föstudögum og hafi ávaxtahlaðborð þar sem allir snæða saman.
Bekkjargaman getur umsjónarkennari haldið með bekknum sínum einu sinni á önn. Þá hittast nemendur með kennaranum sínum eftir skóla og eiga skemmtilega stund saman. Gjarnan er foreldrum boðið að vera með.

Stóra upplestrarkeppnin
Á degi íslenskrar tungu hefst undirbúningur stóru upplestrarkeppninnar hjá nemendum í 7. bekk. Um vorið fer svo sjálf keppnin fram í Vesturbyggð og Tálknafirði til skiptis. Nemendur fá texta til að æfa sig undir stjórn umsjónarkennara. Síðan eru þeir bestu valdir til að keppa fyrir hönd skólans. Dómarar/þjálfarar koma stundum frá Reykjavík og veitt eru verðlaun frá verkefninu. Foreldrafélagið sér um kaffiveitingar.

Norræna skólahlaupið
Norræna skólahlaupið fer fram að hausti. Nemendur hlaupa 2,5-5 -10 km. Lagt er af stað um kl 11.00. Skráð er niður hvað hver nemandi ætlar að hlaupa langt. Íþróttakennari skipuleggur skólahlaupið.

Íþróttamót
Sameiginleg íþróttamót eru haldin fyrir nemendur í GV og Tálknafirði. Mótin eru haldin til skiptis á stöðunum og farið í rútu á milli. Íþróttamót fyrir 8.-10.bekk eru haldin að hausti og fyrir nemendur í 5.-7.bekk að vori. Nemendum er blandað í lið óháð skóla. Ekki er önnur kennsla hjá viðkomandi nemendum þennan dag en kennarar taka þátt í vinnu við mótin. Íþróttakennarar skipuleggja.

Desemberdagskrá
Nemendur búa til jólakort og jólapóstkassa sem settur er upp fyrir utan skólastofurnar. Settur er upp jólapóstkassi fyrir starfsfólk. Settar eru upp jólaseríur og/eða gluggamyndir. Bakaðar eru piparkökur í heimilisfræði. Dagana fyrir litlu jólin er föndrað og hurðir skreyttar. Starfsfólki skólans er boðið í hangikjötsveislu í desember. Litlu jólin geta verið eftir hádegi á föndurdaginn.

Skólasetning
Grunnskólar Vesturbyggðar er settur sama dag í öllum deildum. Í Patreksskóla setur skólastjóri skólann í kirkjunni og kynnir umsjónarkennara og nýtt starfsfólk. Að setningu lokinni fara nemendur með umsjónarkennurum í sínar skólastofur. Þar er spjallað um skólastarfið og nemendur fá stundaskrár .

Skólaslit
Grunnskóla Vesturbyggðar er slitið í báðum deildum sama dag að vori. Patreksskóla er slitið í Félagsheimilinu.

Aðrir sérstakir dagar
Útivistadagur að hausti (sept): Nemendur og kennarar fara niður á íþróttasvæði og þar sér 10. bekkur ásamt íþróttakennara um dagskrá með alls kyns hreyfileikjum.

Litlu-jól (des): Nemendur og kennarar mæta í sínar stofur í skólanum (ca. 1 1/2 klst. ) með umsjónarkennara. Þar er kennarinn með upplestur á einhverju tengdu jólunum. Nemendur hafa með sér ,,sætt“ nesti ásamt drykk. Pakkar eru settir í kassa og síðan draga nemendur eina gjöf hver úr kassanum. Opnuð eru jólakort. Að þessu loknu er haldið í fjölnotasalinn á jólaball (ca. 1 1/2 klst). Að því loknu fara allir í jólafrí.

Þorrablót (jan/feb): Eftir þemadaga sem helgast af undirbúningi undir þorrablót, er sýning í fjölnotasalnum á verkum nemenda tengdum Íslandi/þorra/gömlum siðum o.fl. Foreldrum er boðið í heimsókn á sýninguna. Að sýningu lokinni er nemendum og kennurum boðið upp á þorramatskynningu og foreldrar aðstoða börn sín við borðhaldið, segja frá matnum og jafnvel borða það sem börnin geta ekki hugsað sér að borða.

Árshátið (mars/apríl): Dagana fyrir árshátíðina eru æfingar, bæði í skólanum og síðan í FHP. Árshátíðardaginn er ,,allsherjaræfing“ að morgni, síðan æfa efstu bekkir aðeins eftir hádegi. Árshátíðn sjálf er síðan klukkan 18 og lýkur yfirleitt um klukkan 20. Í hlénu er boðið upp á ,,hnallþórur“ og kaffi sem nemendur í 10.bekk og foreldrar þeirra sjá um. Allir nemendur í 7.-10.bekk leggja til kökur á hlaðborðið.

Foreldra – og nemendadagur (maí): Foreldra – og nemendadagur er haldinn um miðjan maí. Þá er foreldrum boðið í skólann en 10. bekkur skipuleggur daginn. Þá er farið í ýmsa leiki og þrautir, sem staðsettar eru víðs vegar um skólann og skólalóðina.

Síðasti kennsludagur/gróðursetningardagur/útigrill (maí): Síðasta kennsludag/nemendadag er farið upp í Mikladal og hugað að trjám sem nemendur hafa gróðursett gegnum árin. Yngsti hópurinn fær græðlinga til að gróðursetja. Umsjónarkennarar sjá um sinn bekk, en sérgreinakennarar aðstoða. Að því loknu fara allir niður í skóla þar sem boðið er upp á pylsur (SS) og djús.

Skólaslit eru í FHP. Þar heldur skólastjóri ræðu. Einkunnir eru afhentar. Þá er verðlaunaafhending fyrir námsárangur. Formleg skólaslit.

Vorferð 10.bekkjar er skipulögð af foreldrum og sem slík ekki á vegum skólans.