Skólaþjónusta

Samkvæmt Lögum um grunnskóla nr. 91/2008 á skólinn „að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við stöðu og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.“ Í reglugerð um nemendur með sérþarfir nr. 585/2010 er áréttað að allir nemendur eigi að fá „jöfn tækifæri á eigin forsendum til náms og virkrar þátttöku í grunnskólum án aðgreiningar þannig að komið sé til móts við náms-, líkams-, félags- og tilfinningalegar þarfir þeirra.“

Stuðningur og sérkennsla eru ætluð þeim sem þurfa meiri hjálp við nám sitt en kennarar hafa tök á að veita í almennum kennslustundum. Helstu markmið þessarar þjónustu eru að að styrkja sjálfsmynd nemenda og veita þeim kennslu í samræmi við þroska og getu, að styrkja nemendur í sjálfstæðum vinnubrögðum og að treysta samskipti við foreldra sem best. Sérkennarar og sálfræðingur skólans vinna greiningar á þroska, lestrarfærni, einbeitingu og fleiri þáttum í samráði við kennara og  foreldra viðkomandi nemenda.

Stuðningur og sérkennsla fer fram í lesveri Patreksskóla og stýrir fagstjóri sérkennslu starfsemi þess. Sérkennsla fer fram inni í bekkjum, í litlum hópum og einstaklingslega, allt eftir þörfum og aðstæðum. Fjöldi tíma sem nemendur sækja er mjög mismunandi. Fagstjóri sérkennslu hefur yfirumsjón með allri sérkennslu.

Veita skal túlkaþjónustu í almennum foreldraviðtölum (tvisvar á ári) ef foreldrar nemanda tala ekki íslensku eða takmarkaða íslensku. Einnig er hægt að kalla til símatúlk ef nauðsynlegt er að koma upplýsingum til foreldra, t.d. ef barn meiðist eða ef eitthvað alvarlegt kemur upp á í skólanum. Hvetja skal báða foreldra nemanda til mæta í viðtölin og ekki er æskilegt að annað foreldrið túlki fyrir hitt, frekar skal nýta sér þjónustu túlks. Í sumum tilfellum afþakka foreldrar túlkaþjónustu af hálfu skóla en benda skal á að túlkur er ekki eingöngu kallaður til foreldranna vegna heldur líka til að túlka fyrir starfsfólk skóla. Því þurfa foreldrar og starfsfólk að vera sammála um þegar ekki þarf túlkaþjónustu.

Sérkennsla  

Skv. 1. grein grunnskólalaga er sérhvert barn á aldrinum sex til sextán ára skólaskylt og hverju sveitarfélagi er skylt að halda skóla fyrir þau. Skólanum er skylt að haga störfum sínum í samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska hvers og eins.

Sérkennslan er eitt af þeim ráðum sem skólinn hefur til að mæta þörfum þeirra nemenda sem víkja frá því sem algengast er í þroska, getu eða hegðun. Nemandi gæti þurft slíka kennslu til langs eða skamms tíma. Sumir þurfa aðeins fáeina tíma, aðrir einhverja tíma á viku í eitt eða fleiri ár og fáeinir þurfa sérkennslu með einstaklingsnámskrá alla sína skólagöngu.  Sérkennsla getur farið fram á ýmsan máta; í einkatímum, í hópi fáeinna nemenda, inni í bekk og jafnvel blanda af þessu öllu. Stefna skólans er að nemendur fylgi sínum bekk eins og kostur er og tilheyri hópi sinna jafnaldra. Algengast er að foreldrar eða umsjónarkennari eigi frumkvæði að því að barn fái sérkennslu. En aldrei er sérkennsla veitt án þess að fyrir liggi samþykki foreldra. Ferli sérkennslunnar er þannig, að fyrst er vandi nemandans greindur, áætlun gerð til einhvers tíma, síðan er unnið eftir henni og að lokum er metið hvernig til hefur tekist og hvort þörf er á áframhaldandi sérkennslu.

 

Sálfræðingur og sérkennsluráðgjafi og talmeinafræðingur koma í reglulegar heimsóknir í skólann og sinna þeim málum sem tilvísanir koma um. Bæði nemendur, kennarar og foreldrar geta óskað eftir viðtölum hjá þessum sérfræðingum. Einnig er hægt að biðja um símaviðtöl milli heimsókna.

Sérfræðiþjónusta

Litla kvíðameðferðarstöðin sér um sálfræðiþjónustu við Patreksskóla. Sérkennslustjóri sér um að skipuleggja heimsóknirnar í samráði við skólastjóra. Trappa þjónustar skólann varðandi talmeinafræðing og fer sú þjónusta fram gegnum netið.

Sálfræðingur vinnur að forvarnastarfi í samvinnu við starfsmenn skóla meðal annars með kennslufræðilegum og sálfræðilegum athugunum og greiningu á nemendum sem eiga í erfiðleikum sem hafa áhrif á nám þeirra. Sálfræðingur situr fundi í nemendaverndarráði þegar hentugt er og hittir skólastjóra, sérkennara og kennara í skólanum eftir þörfum. Hann skipuleggur og stjórnar skilafundum með nemendum, foreldrum og starfsmönnum skólans.

Verksvið sálfræðings:

 • Athugun og greining á nemendum sem geta ekki nýtt hæfileika sína í námi og starfi og eiga í sálrænum, félagslegum eða námslegum erfiðleikum.
 • Skipulagning á meðferðarúrræðum fyrir nemendur.
 • Ráðgjöf og leiðbeiningar til foreldra og starfsmanna skóla um uppeldi og kennslu nemenda.
 • Samvinna við einstaklinga og stofnanir sem fara með fjölskyldumál.
 • Tengsl við félags- og heilbrigðissvið vegna barnaverndarmála.
 • Öflun og miðlun upplýsinga.

Fagstjóri sérkennslu heldur utan um umsóknir um þjónustu sálfræðings og talmeinafræðings,tekur við eyðublöðum, sendir þau áfram til sálfræðingsins og heldur skrá yfir ferli mála.

Þetta skólaár verður haldið áfram með þróunarverkefnið með Tröppu ehf þar sem veitt er talkennsla, kvíðameðferð og íslenskukennsla fyrir nemendur með íslensku sem annað tungumál í gegnum fjarbúnað.

Patreksskóli er einnig i samráði og samvinnu við Tröppu, sem nýtir fjarkennslumöguleika til sérkennslu og jafnvel sálfræðiþjónustu, s.s. kvíðameðferð. Fagstjóri sérkennslu við Patreksskóla hefur haldið utan um það samstarf.

Námsráðgjöf

Helstu verkefni námsráðgjafa eru:

 • Veita nemendum ráðgjöf um náms- og starfsval og fræða þá um nám, störf og atvinnulíf.
 • Leiðbeina nemendum um vinnubrögð í námi.
 • Veita nemendum ráðgjöf í einkamálum þannig að þeir eigi auðveldara að ná settum markmiðum í námi.
 • Aðstoða nemendur við að setja sér markmið og gera sér grein fyrir eigin áhugasviðum
 • Veita foreldrum ráð varðandi nám og hegðun barna þeirra.

Elmar Þórðarson sérkennsluráðgjafi sinnir námsráðgjöf 2018-2019.

 

Sálfræðingur og sérkennsluráðgjafi og talmeinafræðingur koma í reglulegar heimsóknir í skólann og sinna þeim málum sem tilvísanir koma um. Bæði nemendur, kennarar og foreldrar geta óskað eftir viðtölum hjá þessum sérfræðingum. Einnig er hægt að biðja um símaviðtöl milli heimsókna.

Upplýsingar um menntun þeirra sem sinna sérfræðiþjónustu sveitarfélagsins

+ Sérkennarar með sérkennaramenntun

+ Sálfræðingur

+ Talmeinafræðingur

+ Námsráðgjafi

Tilvísunarblað