Núna á vordögum var Patreksskóli samþykktur sem UNESCO skóli og er það mikill heiður fyrir nemendur og starfsfólk og alger samhljómur með þeim áherslum sem Patreksskóli vinnur með. UNESCO hefur starfrækt samstarfsnet skóla á alþjóðavísu frá árinu 1953 undir nafninu UNESCO Associated schools project network (ASPnet). Þeir eru nú um 10.000 talsins og starfa í 181 landi. Skólarnir eru á grunn– og framhaldsskólastigi.
UNESCO–verkefni auka fjölbreytni í kennsluaðferðum og þekkingu nemenda á málefnum Sameinuðu þjóðanna og heimsmarkmiðunum. Verkefnin eru þverfagleg og geta því nýst í ýmsum kennslutímum. Þau passa vel inn í grunnþætti aðalnámskráa grunn- og framhaldsskóla og hafa mikið hagnýtt gildi.
Það felast ótal tækifæri í því að vera hluti af UNESCO skólanetinu, og er það á höndum hvers skóla fyrir sig að útfæra sína þátttöku.
- Skólarnir hafa aðgang að fjölbreyttu alþjóðalegu tengslaneti og geta valið að starfa með vinaskólum um allan heim.
- Nemendur fá tækifæri til að taka þátt í verkefnum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um allan heim,
- Sendiráð Íslands í ólíkum þjóðum leitast við að vísa til skólanna spennandi verkefnum og tækifærum sem tengjast gildum UNESCO.
- Félag Sameinuðu þjóðanna bíður þeim árlega til þátttöku í verkefnum tengdum Heimsins stærstu kennslustund.
- Tenging við fjölbreyttan vettvang UNESCO á Íslandi.
- Stuðning og kennsluefni frá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, þar sem leitast er við að halda skólunum upplýstum um þær áherslur og verkefni sem eru í gangi hverju sinni hjá UNESCO og Sameinuðu þjóðunnum.
- Fræðsluheimsóknir af ýmsu tagi.
- Kennarar og nemendur fá tækifæri til að taka þátt í ráðstefnum og þingum á vegum UNESCO og skólaneta annara landa.
Að vera UNESCO–skóli felur í sér langvarandi samkomulag og samvinnu milli skólans og UNESCO, þar sem skólinn innleiðir verkefni tengdum einhverju af fjórum þemum UNESCO–skóla: alþjóðasamvinna, starfsemi Sameinuðu þjóðanna, heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun og/eða friður og mannréttindi. Skólarnir skuldbinda sig til að:
- Halda árlega upp á tvo ólíka alþjóðadaga Sameinuðu þjóðanna, þar er úr ótal dögum að velja svo sem alþjóðadaga: læsis, mannréttinda, hafsins, einhverfu, barnsins, friðar, jarðarinnar og vísinda.
- Standa árlega fyrir einum viðburð sem tengist Sameinuðu þjóðunum. Sem dæmi geta þetta verið þemadagar sem eiga samhljóm við gildi Sameinuðu þjóðanna eða heimsmarkmiðin, sýningar af einhverjum tagi á verkefnum tengdum gildum Sameinuðu þjóðanna eða heimsmarkmiðunum. viðburðir sem snúa að umhverfissvernd eða loftlagsaðgerðum eða góðagerðar viðburðir.