Námskerfi

Seesaw upplýsingakerfið er einstakt ferilmöppukerfi að því leytinu til að með notkun þess er okkur gert kleift að deila verkefnum nemenda með viðkomandi foreldri um leið og verkefnið er unnið.

Kerfið býður upp á fjölmarga möguleika til að skila verkefnum sem miða að því að hver og einn nemandi geti nýtt sína styrkleika sem er lykilatriði í skóla án aðgreiningar og kveðið er á um í Aðalnámskrá grunnskóla sem okkur ber að vinna eftir.

Kerfið er einnig notað til námsmats þar sem hæfniviðmið skólans eru sett inn og kennari getur með einföldum hætti gefið fyrir verkefni og fylgst með framvindu nemandans. 

Kennari býr til verkefni og birtir það á síðum nemenda. Þar inni fer hver nemandi inn í sitt verkefni og leysir það á sinn hátt. Seesaw heldur utan um vinnu nemandans og foreldrar og kennarar sjá afraksturinn.

Meginhlutverk kennarans er kennslu- og uppeldisfræðilegt starf með nemendum, að vekja og viðhalda áhuga þeirra á námi, veita þeim handleiðslu á sem fjölbreytilegastan hátt og stuðla að góðum starfsanda og vinnufrið meðal nemenda. Þessu hlutverki má einnig lýsa sem forystuhlutverki; að vera leiðtogi í námi nemandans. Þetta felur í sér áherslu á að skapa nemendum frjóar og fjölbreytilegar námsaðstæður.

Velferð barna og farsæl námsframvinda byggist ekki síst á því að foreldrar styðji við skólagöngu barna sinna og gæti hagsmuna þeirra í hvívetna, eigi gott samstarf við skóla, veiti skólanum viðeigandi upplýsingar og taki þátt í námi barna sinna og foreldrastarfi frá upphafi til loka grunnskóla. Upplýsingagjöf milli heimila og skóla og samráð kennara og foreldra um nám og kennslu er mikilvæg forsenda fyrir árangursríku skólastarfi. Skólar bera ábyrgð á að slíkt samstarf komist á og því sé viðhaldið alla skólagöngu barnsins. Virk hlutdeild og þátttaka foreldra í námi og starfi barna sinna er forsenda þess að foreldrar geti axlað þá ábyrgð sem þeir bera á farsælu uppeldi og menntun barna sinna.