Í síðustu viku var 8. bekkur að vinna að skemmtilegu vorverkefni um fugla í nærumhverfinu.
Fuglalífið er í blóma á þessum tíma árs og því ekki hægt að velja betri tíma til að skoða í kringum sig og skrá niður staðreyndir um fuglana.
Áður en verkefnið hófst var gert hugarkort á töflu þar sem nemendur töldu upp fuglategundir sem þau þekktu og ýmsar staðreyndir sem þau vissu um fugla.
Þar með var verkefnið hafið. Skólinn býr vel að því leyti að hér er til kassi með uppstoppuðum fuglum sem og kassi með eggjum. Þarna gátu þau borið saman stærðir fugla og eggja og skoðað eggin sem tilheyrðu vissum tegundum.
Síðan fengu þau að ákveða hvernig þau vildu skila afrakstrinum. Flestir vildu skila með glærusýningu og aðrir með veggspjaldi. Kennari ákvað að þau myndu einnig kynna verkefni fyrir einhverjum og nemendur völdu að það yrði hluti starfsfólks sem fengi kynningu. Að lokum áttu allir að hengja sína kynningu upp á vegg.
Nú var komið að því að nemendur fóru út í göngu með kennaranum sínum til að athuga hvort ekki mætti sjá nokkrar tegundir fugla. Nemendurnir áttu að reyna að ná myndum af þeim, sem er nú ekki alltaf auðvelt. Það gekk ágætlega en þar sem við vorum á ferðinni og ekki reyndist létt að læðast og hafa þögn, flugu fuglarnir yfirleitt upp áður en það náðist að taka mynd.
Þegar upp í skóla var komið valdi hver nemandi sér fugl til að kynna. Þeir þurftu því að afla sér upplýsinga og koma þeim frá sér og í stuttu máli skiluðu þeir þeirri vinnu með sóma.
Að lokum var kynning haldin fyrir nokkra starfsmenn skólans, sem vakti mikla lukku.
Nemendur voru sammála um að eftir verkefnið voru þeir þó nokkuð fróðari um fugla almennt og þó sérstaklega þá fugla sem eru í nærumhverfinu.