Heil og sæl kæru foreldrar.
Ég vil byrja á að þakka þeim foreldrum sem sáu sér fært að mæta á skólakynninguna kærlega fyrir komuna.
Vikan hefur verið fjölbreytt og skemmtileg hjá okkur. Við fengum ljómandi gott veður á útivistardeginum. Aron Páll íþróttakennari sá um að skipuleggja þennan dag og farið var í marga skemmtilega leiki fram eftir morgni. Nemendur og kennarar tóku allir þátt og skapaðist fjörug stemning. Að lokum var svo farið í stígvélakast þar sem 10. bekkur keppti á móti kennurum og var keppnin mjög hörð en úrslitin urðu þau að 10. bekkur vann kennarana (með naumindum þó).
Tónlist fyrir alla kom til okkar í vikunni. Að þessu sinni var það hljómsveitin Skuggamyndir frá Býsans sem kom og fór með okkur í ferðalag um Balkanlöndin, meðal annars til Grikklands, króatíu og Tyrklands. Tónlistin var alveg frábær, mikið fjör, mikið klappað og hljóðfærin sem þeir spiluðu á voru mörg hver mjög sérstök .
Nú erum við að byrja aftur með Grænfánafundina. Við höfum ákveðið að breyta tímanum og vera síðasta fimmtudag í mánuði, í fyrsta tíma eftir hádegi. Á fundinn mæta allir nemendur og starfsmenn skólans ásamt fulltrúa frá foreldrum. Við hvetjum alla til að koma með fjölnota nestisbox í skólann. Einnig fjölnota brúsa.
Í þessari viku byrjuðum við að vinna með þarfirnar í uppbyggingastefnunni. Þarfirnar eru gleði-áhrifavald-frelsi-umhyggja. Fimmta þörfin er öryggi sem allir þurfa að finna til að hægt sé að vinna með hinar. Við höldum áfram að vinna með þarfirnar í næstu viku, gerum plaköt og höfum þetta sýnilegt í stofunni.
Samræmdu prófin hjá 7. bekk byrja í næstu viku:
Prófin standa yfir kl 9.00-11.40
Íslenska fimmtudagur 26.september
Stærðfræði föstudagur 27.september
7.bekkur mætir beint í prófin fer síðan inn í samkennslubekkina sína og í mat og kennslu eftir hádegi.
Græn ábending: Til að koma í veg fyrir vonda lykt í húsinu er gott að leggja appelsínubörk á heita eldavélahellu.
Bestu kveðjur og góða helgi.
Klara Berglind.