Kæru foreldrar/forráðamenn.
Þá er þessari stuttu viku lokið og er þetta jafnframt næst síðasta hefðbundna skólavikan.
Á mánudaginn var frí vegna hvítasunnu og þriðjudaginn var einnig frí vegna skipulagsdags kennara.
Á fimmtudaginn komu til okkar Sendiherrar fatlaðs fólks. En þeir voru að kynna samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þeir héldu fyrirlestur og sýndu okkur stuttmynd. Eftir myndina ræddu sendiherrarnir við 9.-10. bekk og starfsfólk skólans um málefni fatlaðra.
Í dag, föstudaginn 24. maí er síðasta föstudagssamveran á Patró og jafnframt síðasta ferð 5.-10. bekkjar í Patreksskóla þennan veturinn.
10. bekkur lagði af stað í hina margtöluðu Danmerkurferð í gær (fimmtudag). Mikil spenna ríkti fyrir ferðinni og vonum við að hún verði frábær og ógleymanleg!
Á sunnudaginn mun 8.-9. bekkur í Bíldudals-og Patreksskóla leggja af stað í spennandi Noregsferð. En við erum að fara að heimsækja norsku nemendurna sem við höfum verið að vinna verkefni með síðastliðna tvo vetur.
Í næstu viku gætu orðið einhverjar breytingar á stundaskrá. Þar sem tveir kennarar og 8.-10. bekkur verða fjarverandi gætu nemendur í 5.-7. bekk komið eitthvað fyrr heim en vanalega. Reynt verður að halda stundaskrá óbreyttri eins og mögulegt er.
Þar sem 1.-4. bekkur mun byrja í skólasundinu verður hádegismaturinn kl. 11.15 en ekki 12.05 eins og vant er.
Græn ábending um vistvæn húsráð:
Lyktin í eldhúsinu; Til að koma í veg fyrir vonda lykt í eldhúsinu er gott að leggja appelsínubörk á heita eldavélahellu.
Fallegir gluggar með salti; Til þess að fá gluggana til að vera sérstaklega fallega og hreina er ráðlagt að bæta salti út í sápuvatnið.
Kærar kveðjur, Signý og Arnar