Kvenfélagið Sif á Patreksfirði samþykkti fyrr í vetur að styrkja Patreksskóla til kaupa á Ipad og búnaði til forritunarkennslu á yngsta stigi.
Lionsklúbbur Patreksfjarðar samþykkti á síðasta fundi vetrarins að styðja við Patreksskóla til tölvukaupa og styrkja þannig gott skólastarf í Patreksskóla.
Til að hægt sé að halda uppi framúrskarandi skólastarfi þar sem viðhafðir eru skapandi, fjölbreyttir og einstaklingsmiðaðir kennsluhættir er æskilegt að nemendur hafi aðgang að góðum og fjölbreyttum tækjakosti. Upplýsingatækni stuðlar að sveigjanleika, jafnrétti í námi og gefur rými til sköpunar á mörgum sviðum. Það er okkar markmið að nemendur Patreksskóla hafi aðgang að fjölbreyttum tækjum sem styðja við fjölbreytt nám nemenda. Nemendur á mið- og unglingastigi hafa öll hvert sínar Chromebook tölvur til afnota en eins og gengur er tækjakostur er nokkuð fljótur að úreldast. Þá stefnum við að því að nemendur á öllum stigum hafi aðgang að tölvum og margvíslegum hugbúnað til þekkingaröflunar, sköpunar og miðlunar.
Fyrir hönd nemenda og starfsfólks Patreksskóla þakka ég fyrir þann hlýhug og velvilja sem Lionsklúbbur Patreksfjarðar og Kvenfélagið Sif hefur sýnt í gegnum árin. Stuðningurinn við skólann er ómetanlegur.