Hoppa yfir valmynd

Hvað er að frétta af bóka­safni Patreks­fjarðar?

Á bóka­safni Patreks­fjarðar vinnur einn starfs­maður en safnið er opið almenn­ingi fjórum sinnum í viku.


Skrifað: 7. maí 2024

Fréttir

Safnið þjónustar einnig skólann og tekur á móti öllum bekkjum Patreksskóla, auk þess sem tveir hópar frá leikskólanum Arakletti koma einu sinni í viku og leikskóladeildin Klif einu sinni í viku. Þá fer bókasafnið líka einu sinni í viku með bækur í Eyrasel þar sem félagsstarf aldraðra fer fram.

Á bókasafninu er ekki aðeins hægt að fá lánaðar bækur heldur einnig spil. Eins eru reglulega námskeið og viðburðir á bókasafninu. Frá því að skólinn hófst í haust hafa ýmsir viðburðir verið haldnir, s.s. vatnslitun, hrekkjavökuföndur, teiknimyndasögugerð, klippimyndagerð, jólaföndur, búningaskiptimarkaður fyrir öskudaginn, spilakvöld og bingó. Hægt er að fylgjast með viðburðum og dagskrá bókasafnins á facebook-síðu safnins undir heitinu Bókasafnið Patreksfirði.

Í haust blésu bókasöfn Vesturbyggðar síðan til smásagnakeppni fyrir miðstig og unglingastig grunnskólanna í Vesturbyggð en þema keppninar var galdrar. Í verðlaun var bókagjöf og 5000 kr. gjafabréf. Verðlaunahafar voru kunngjörðir á Degi íslenskrar tungu og voru það Íris Ásta Lárusdóttir í 6. bekk í Patreksskóla og Guðrún Benney Ólafsdóttir í 10. bekk í Patreksskóla sem sigruðu.

Bókaklúbburinn Patreksfirði hittist einnig á bókasafninu síðasta miðvikudagskvöld hvers mánaðar en hægt að er fylgjast með því á facebook-síðu þeirra undir heitinu Bókaklúbburinn Patreksfirði.

Hvað er að frétta? er liður á heimasíðunni þar sem birtar eru fréttir af starfsstöðvum og stofnunum sveitarfélagsins.


Forstöðumaður bókasafna Vesturbyggðar

BÓÞ

Birta Ósmann Þórhallsdóttir bokpatro@vesturbyggd.is / 450 2374