Hoppa yfir valmynd

Ferða­þjón­arnir okkar - Vestur Restaurant

Við innkomuna í þorpið á Patreks­firði blasir við Vestur Restaurant, fjöl­skyldu­fyr­ir­tæki sem er allt í senn veit­inga­staður, verslun, mötu­neyti fyrir Patreks­skóla og margt fleira. Lilja Sigurð­ar­dóttir, fram­kvæmda­stjóri og eigandi fyrir­tæk­isins, segir mikil­vægt að vera opinn fyrir nýjungum og gefa ungum starfs­mönnum tæki­færi á að spreyta sig.


Skrifað: 7. maí 2024

Fréttir

Bæjarbúar á Patreksfirði ættu að vera vel kunnir matseðlinum á Vestur þar sem má meðal annars finna súrdeigspizzur í miklu úrvali, en þá er einnig hægt að fá sér súpu og salat í hádeginu sem er sérlega vinsælt meðal erlendra ferðamanna. Vestur sér einnig um bensíndælur fyrir N1, þar er smá sjoppa og þau sem vilja freista gæfunnar geta keypt sér lottó. Þá hafa þau verið með eitthvað af gjafavörum fyrir þau sem fá boð í veislu á síðustu stundu og snyrtivörur á sumrin fyrir ferðamanninn. Þau sáu um tjaldsvæðið á Patreksfirði á tímabili og haustið 2022 byrjuðu þau að taka við Dropp sendingum, sem Lilja segir skemmtilega viðbót við reksturinn og hafi fjölbreyttur hópur bæst við viðskiptavinahópinn í leiðinni.

Vestur hefur jafnframt séð um skólamatinn fyrir Patreksskóla sem hefur verið góð festa í rekstrinum utan ferðamannatímabilsins. Einu sinni í mánuði fá börnin í skólanum að velja sjálf hvað er í matinn, kemur þá fáum á óvart að pizzan er vinsæl en kjúklingaborgarinn hefur líka slegið í gegn.

Salatbarinn er vinsæll hjá erlendum ferðamönnum

Hjá Vestur eru tveir starfsmenn í fullu starfi, bræðurnir André og David Silva, auk fleira starfsfólks í hlutastarfi. Hluti af stefnu fyrirtækisins hefur verið að ráða til sín unga starfskrafta sem eru jafnan í sinni fyrstu vinnu og eru oft ráðnir eftir að hafa prófað vinnuna í starfskynningu. Lilja lítur á það sem samfélagslega ábyrgð sína að ráða ungt starfsfólk og kenna því hvernig það eigi að vinna svo það sé með góðan grunn þegar það fer út á vinnumarkaðinn. Þau hafi verið virkilega heppin með starfsfólk og það hefur verið mikil festa í starfsmannahópnum.

Bræðurnir André og David Silva

Þegar Lilja og André hófu rekstur Vestur Restaurant árið 2019 lá fyrir að þau vildu reka staðinn í fimm ár og nú með haustinu ætla þau að hætta rekstrinum. Þau eru ótrúlega ánægð með þennan skemmtilega tíma og hafa lært mikið. Lilja tekur líka fram hvað það sé frábært að rekstraraðilar í bænum eru til í að styðja hvern annan. Þá hafi André og David, sem eru frá Portúgal, kynnst ótrúlega mörgum og komist betur inn í samfélagið á Patreksfirði. Þau eru spennt fyrir því að nýir aðilar taki boltann og haldi áfram að byggja upp starfsemina á staðnum. En þau eru ekki hætt enn, ætla að taka síðasta sumarið með trompi og hlakka til að taka á móti nýjum og gömlum viðskiptavinum.

 

Ferðaþjónarnir okkar er nýr liður á heimasíðunni þar sem við kynnumst öllum rekstraraðilum í ferðaþjónustu í sveitarfélaginu okkar. Verkefnið er í umsjón menningar- og ferðamálafulltrúa sem vinnur eftir birtingaráætlun. Ferðaþjónum sem hafa ekki fengið birtingaráætlun senda er bent á að hafa samband við hann.